25.8.2022 9:39

Ástæðulaus móðgun

Vegna komu gestanna frá Eystrasaltsríkjunum birtist furðufrétt (ekki í fyrsta sinn) á forsíðu Fréttablaðsins miðvikudaginn 24. ágúst.

Forsetar og utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna þriggja verða hér á landi í dag og á morgun (25.–26. ágúst) í opinberri heimsókn og er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gestgjafi þeirra. Þess er minnst að 26. ágúst 1991 komst að nýju á stjórnmálasamband ríkjanna eftir að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna á ný sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens á upplausnartíma Sovétríkjanna.

Að morgni föstudags 26. ágúst verður hátíðarsamkoma í Höfða í Reykjavík. Þar kynnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherranna. Frá Höfða verður haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem forseti Íslands flytur fyrirlesturinn „Icebreaker on the International Scene? Icelandic Support for Baltic Independence 1990 – 1991“.

FindexFánalitir Litháens, Lettlands og Eistlands.

Vegna komu gestanna frá Eystrasaltsríkjunum birtist furðufrétt (ekki í fyrsta sinn) á forsíðu Fréttablaðsins miðvikudaginn 24. ágúst undir fyrirsögninni: Ætluðu sér að hundsa Jón Baldvin. Þar hefur blaðamaðurinn Björn Þorláksson eftir Sighvati Björgvinssyni, fyrrverandi ráðherra og flokksbróður Jóns Baldvins, að hann hafi mánudaginn 22. ágúst „uppgötvað“ að Jóni Baldvini hafi „vitandi vits“ verið haldið frá samkomunni í Háskóla Íslands. Honum sé „útskúfað“ þrátt fyrir hann eigi „stærstan persónulegan þátt í að“ Eystrasaltsríkin fengu sjálfstæði. Rætt er við Jón Baldvin sem dvelst á Spáni og segir: „Ég skil ekki af hverju menn eru svona lítilsigldir. Ég virðist vera í starfs- og framkomubanni“ í Háskóla Íslands en segist hafa verið settur þar í „starfsbann“ árið 2015 með því að vera sviptur kennslu.

Forsíðufréttin kallar fram sérstaka tilkynningu frá embætti forseta Íslands. Þar segir að „ósatt [sé] með öllu að til hafi staðið bjóða ekki“ Jóni Baldvini til hátíðarviðburðarins. Hann hafi fengið „boð sama dag og aðrir boðsgestir“ og „[a]uðvelt hefði verið fyrir blaðið að sannreyna þetta með einu símtali“. Jón Baldvin Hannibalsson hafi auk þess árið 2016 verið á gestalista vegna viðburðar á Bessastöðum þegar aldarfjórðungur var liðinn frá endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltslandanna. Í lok tilkynningarinnar segir:

„Óhætt er að fullyrða að enginn annar Íslendingur en núverandi forseti (fyrir utan Jón sjálfan) hefur vakið eins oft og vel athygli á atbeina hans örlagaárið 1991 þegar íslensk stjórnvöld studdu dyggilega við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna.“

Í Fréttablaðinu í dag (25. ágúst) fara blaðamaðurinn og Sighvatur Björgvinsson undan í flæmingi vegna afdráttarlausrar tilkynningar forsetaembættisins.

Nú er málið sagt snúast um tvö netföng Jóns Baldvins en boðið var sent á þau bæði og þá telur Sighvatur að hefði hann „ekki gripið inn í með símtali við forsetaskrifstofu hefði Jóni Baldvini mögulega ekki verið boðið til samkundunnar. Það hefði verið hneyksli“.

Fréttablaðið segir að hvorki Jón Baldvin né Sighvatur takið þátt í hátíðarviðburðinum.

Í keppni um „ekki-forsíðufréttir“ Fréttablaðsins nálgast þessi vinninginn. Viðhengin við hátíðarviðburði eru oft skrýtin og þetta rataði meira að segja á vefsíðu forsetaembættisins til að fyrir lægi hvað sannara reyndist.