14.1.2023 10:54

Áróður í kennslustofu

Þegar bent er á augljósa flokkspólitíska misnotkun í kennslustofunni hafa nemendur oft átt erfitt um vik við að sanna fullyrðingar sínar.

Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi, segir á Facebook síðu sinni föstudaginn 13. janúar:

„Ég kenndi í framhaldsskóla í áratug í „gamla lífinu“ mínu og er enn skráður sem kennari í símaskránni. Í FÍV [Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum] kenndi ég með fólki með sterkar pólitískar skoðanir. Almennt gættu þeir þess að stunda ekki innrætingu og forðuðust hlutdrægni og fordæmingu í kennslu. Valdajafnvægið í kennslustofunni er enda mjög ójafnt og börnin/nemendurnir á viðkvæmu mótunarskeiði.

Nú er öldin önnur. Kennari (sem jafnframt var frambjóðandi Vinstri grænna) líkir íslenskum miðjumanni [Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni] við tvö af þremur mestu illmennum stjórnmálasögu hins vestrænna heims í seinni tíma; Hitler og Mussolini (sá þriðji er Stalin). Í kjölfarið stígur skólameistari fram til varnar þeim gjörningi. Framganga kennarans í Versló var hinsvegar þvi miður ekki einsdæmi um hvernig innræting er stunduð í kennsluaðstæðum. Þessi glæra (sem er úr MS [Menntaskólanum við Sund]) þar sem Sjálfstæðisflokknum er líkt við Þýskaland Hitlers, Gestapo og úrýmingu kynþátta talar sínu máli.

Hvað er til ráða?“

Það er ekki nýtt að kvartað sé undan innrætingu í skólum. Kvartanir vegna hennar hafa meðal annars leitt til þess að hætt er að leggja rækt við eina af meginstoðum íslenskrar menningar, kristin fræði, í skólum. Kvartað var með vísan til mannréttinda og ýmissa annarra grunnþátta lýðræðislegra samfélaga sem sóttir eru í kristna menningararfinn.

1389821Þegar bent er á augljósa flokkspólitíska misnotkun í kennslustofunni hafa nemendur oft átt erfitt um vik við að sanna fullyrðingar sínar. Nútíma tækni, farsímar, spjaldtölvur, tölvur og annar stafrænn búnaður auðveldar nemendum að sanna mál sitt eins og dæmin tvö sem Elliði nefnir sanna.

Það er rík tilhneiging heimfæra menn og málefni úti í stóra heiminum hingað í afskekkta fámennið. Vandinn er hins vegar að oftast er um algjörlega ósambærilega hluti að ræða.

Sigmundur Davíð á einfaldlega ekkert sameiginlegt með Hitler eða Mússólíni og á þess vegna alls ekki skilið að vera stillt upp á vegg í skólastofu við hlið þeirra. Þarna er á markvissan hátt vegið að íslenskum stjórnmálamanni og er engin þörf á því til að stofna til umræðna þótt skólastjóri Verslunarskólans kjósi að velja þá útleið kennaranum til afsökunar frekar en hreinsa skjöld skólans á annan hátt.

Að kenna Sjálfstæðisflokkinn við það sem kemur fram á glærunni sem Elliði birti og fylgir hér með er beinlínis til þess fallið að rugla nemendur í ríminu og ýta undir ranghugmyndir.

Elliði spyr: Hvað er til ráða? Hér gildir sama og almennt gegn upplýsingafölsunum og tilraunum til að skapa upplýsingaóreiðu, að snúast til varnar. Hvetja nemendur til árvekni og að þeir láti ekki misbjóða sér. Rökstyðja fullyrðingar um misnotkun með gögnum. Skólastjórnendur rísi undir trausti sem þeim er sýnt með því að halda uppi viðunandi aga.