Áritanaáhugi utanríkisráðherra
Stefna utanríkisráðuneytisins um stóraukna fjölgun Schengen-áritana til að bæta hag ríkissjóðs minnir á að stjórnvöld á Möltu höfðu lengi tekjur af sölu vegabréfa.
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er að finna lagafrumvarp sem utanríkisráðherra ætlar að endurflytja nú í september í því skyni „að einfalda stjórnsýslu við útgáfu vegabréfsáritana til að auka hagkvæmni og afkastagetu á því sviði svo íslensk stjórnvöld geti sjálf annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir í auknum mæli“.
Umræður hvarvetna í nágrenni okkar mótast af því viðhorfi að auðvitað sé enginn andvígur því að fólk fái vegnabréf eða áritanir í þau til að geta ferðast og þá beri að taka á móti þeim sem í neyð sinni leggi á flótta skilríkjalausir. Gagnrýnin og vandinn komi til sögunnar þegar hugað sé að fjöldanum. Það blasi við að straumur farandfólks án skilríkja yfir landamærin sé of mikill að. Ríkisstjórnir verði að huga að þeirri staðreynd og herða landamæravörslu.
Sú skoðun er almenn að hér hafi aðkomumönnum fjölgað umfram það sem þolanlegt er og boðað er að dómsmálaráðherra og yfirvöld útlendingamála haldi áfram að þrengja nálaraugað. Viljinn til að skapa glufur hverfur þó ekki.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026 er heildarfjárheimild til útlendingamála áætluð rúmlega 6,5 milljarðar. Það er rúmlega 3 milljörðum lægri fjárhæð en í gildandi fjárlögum. Fjárheimildin lækkar um 5 milljarða vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd enda hefur þeim fækkað. Á móti kemur aukin fjárheimild um 2 milljarða, þar af er helmingurinn tímabundinn.
Ætlunin er meðal annars að auka heimildir um 800 milljónir til að stytta málsmeðferðartíma afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, vinna niður málahala og liðka fyrir sjálfviljugum heimferðum, eins og það er orðað í frumvarpinu. Allt eru þetta verkefni á vegum útlendingastofnunar og lögreglu.
Inn á þetta verksvið ætlar utanríkisráðuneytið nú að troða sér í því skyni að fjölga Schengen-áritunum til mikilla muna til að hækka sértekjur ríkissjóðs.
Sá sem fær Schengen-áritun frá einu ríki er ekki skyldugur til að dveljast í þegar hann er einu sinni kominn inn á Schengen-svæðið. Hann getur ferðast um það allt. Stóraukin fjölgun áritana til að bæta hag ríkissjóðs minnir á að stjórnvöld á Möltu höfðu lengi tekjur af sölu vegabréfa.
Þegar þetta útgáfumál var rætt á vorþinginu benti embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem annast landamæravörslu á Keflavíkurflugvelli, á þá staðreynd að hingað kæmu einstaklingar með áritun í nafni íslenskra yfirvalda sem ætluðu sér aldrei að ferðast hér eða reka nokkurt erindi.
Sé það markmið utanríkisráðuneytisins að „auka hagkvæmni og afkastagetu“ á þessu sviði getur það ekki falist í öðru en að hér eigi að taka upp aðrar aðferðir en til þessa og leita leiða til að skapa sér sérstöðu á þessu sviði innan Schengen-samstarfsins en fyrirsvar málaflokksins hefur frá upphafi árið 2001 verið í höndum dómsmálaráðherra sem nú þegir þunnu hljóði.
Starfsmenn utanríkisráðuneytisins hafa sinnt þjónustustörfum vegna umsókna um áritanir auk þess hefur verið samið um þjónustu af hálfu annarra ríkja þar sem Ísland hefur ekki starfsstöð til móttöku beiðna um áritun.
Efnislegu rökin fyrir uppbroti á þessum þætti landamæravörslunnar eru engin. Frumvarpið er til þess eins fallið að skapa glundroða og vandræði.