1.1.2025 10:35

Áramótaávörp hér og þar

Það ætti að marka ríkisútvarpinu og ekki síst fréttastofu þess ný viðmið um fréttir á stórhátíðisdögum í samræmi við þann anda sem þá setur mestan svip á hug landsmanna.

Gleðilegt ár 2025!
Forvitnilegt var á gamlársdag að fylgjast með því hvernig danska ríkisútvarpið bjó dönsku þjóðina undir að Friðrik X. konungur flytti fyrsta áramótaávarp sitt eftir að móðir hans, Margrét II., hafði gert það samfellt í 52 ár.
Ríkissjónvarpið, DR1, setti upp búnað fyrir beina útsendingu á hallartorginu fyrir framan Amalienborg í Kaupmannahöfn þar sem konungur flutti ræðu sína í beinni útsendingu klukkan 18.00 að dönskum tíma. Hófst útsending sjónvarpsins klukkan 16.00.Screenshot-2025-01-01-at-10.49.31Friðrik X. Danakonungur flytur áramótaávarp 31. desember 2024. 
Í upphafi ræðu sinnar sagði konungur að sér væri ljóst að margir væru taugaveiklaðir þegar þeir leiddu hugann að því hvernig honum tækist að koma ræðunni frá sér. Sá kvíði hvarf örugglega fljótt því að konungur flutti vel samda ræðu sína af hófsömum virðugleika. Hann hafði sama hátt og móðir hans og las ræðuna af blöðum, fletti þeim oft og fipaðist sjaldan við flettinguna.
Eftir ræðuna gáfu álitsgjafar DR1 ræðunni og ræðumanni mjög góða einkunn auk þess sem fréttamaður fór um hallartorgið og leitaði álits hjá almennum borgurum sem þar stóðu og fylgdust með ræðunni á skjám. Þeir voru einnig mjög sáttir við ræðuna. Síðar hefur verið bent á að konungurinn hefði mátt tala meira um Grænland.
Ekkert sambærilegt gerir ríkisútvarpið hér þegar nýr forsætisráðherra, nýr biskup og nýr forseti ávarpa þjóðina við áramót og upphaf nýs árs. Þess var ekki einu sinni getið í fyrstu fréttum ríkisútvarpsins klukkan 10.00 að morgni nýárdags hvað bar hæst í ávarpi Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra kvöldið áður og því síður var minnt á að hlusta mætti á ræðu biskups í messu í Dómkirkjunni kl. 11.00 og ávarp forseta klukkan 13.00 auk þess sem því yrði sjónvarpað.
Í fréttunum klukkan 10.00 var að mestu stuðst við dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og síðan sagt frá því að einhver stuðningsmaður Trumps sem tók þátt í aðförinni að bandaríska þinghúsinu 6. janúar 2021 ætlaði að sækja um pólitískt hæli í Kanada!
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri flutti ávarp eftir Skaupið á gamlárskvöld og bar lof á stofnunina sem hann stýrir. Hann gat þess meðal annars að nú hefði verið mótuð tónlistarstefna fyrir ríkisútvarpið án þess að lýsa efni hennar nánar. Kannski hefur hún birst einhvers staðar.
Eitt er víst að enn er haldið þeim sið að morgni nýársdags að útvarpa 9. sinfóníu Beethovens. Vonandi breytir nýja stefnan því ekki en klassísk tónlist setur æ minni svip á dagskrá Rásar 1. Mætti halda að þeir sem stjórna þar telji slíka tónlist ekki eiga mikið erindi til hlustenda, þeir vilji heldur sundurlausa þætti um samfélagsmál eða dulbúnar auglýsingar um viðburði.
Það ætti að marka ríkisútvarpinu og ekki síst fréttastofu þess ný viðmið um fréttir á stórhátíðisdögum í samræmi við þann anda sem þá setur mestan svip á hug landsmanna. Norrænu ríkisútvörpin og ekki síst Danir kunna þetta. Þar líta menn á það sem mikilvægt þjónustuhlutverk að sýna konungsfjölskyldunni virðingu og efla þannig danska þjóðarvitund.