31.12.2025 10:39

Ár foringjanna

Foringjaræðið setur svip á allar yfirlýsingar Kristrúnar um stjórnarsamstarfið við formenn Viðreisnar og Flokks fólksins. Samstaða þeirra þriggja er stjórnin.

Myndin af Vladimir Pútin Rússlandsforseta, Xi Jinping Kínaforseta og Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu á stalli við hersýningu í Peking 3. september 2025 er táknmynd fyrir vaxandi foringjaræði í heiminum.


Aen2025090300095431507ip4Vladimir Pútin, Xi Jinping og Kim Jong-un á Torgi hins himneska friðar 3. september 2025.

Önnur mynd kemur einnig í hugann. Hún er af Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta og Donald Trump Bandaríkjaforseta við arininn í forsetaskrifstofu Hvíta hússins 28. febrúar 2025. Trump lyftir fingri til að árétta ofanígjöf sína við Zelenskíj.

Eftir fundinn töluðu viðmælendur Trumps aðeins um hann fullir aðdáunar og viðurkenningar. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, bjó til dæmis til sérstök friðarverðlaun til að sæma Trump. Undir árslok hafði bandaríski flugherinn ákveðið að næsta kynslóð orrustuflugvéla skyldi heita F-47 til heiðurs 47. forseta Bandaríkjanna, Trump. Sjálfur kynnti hann til sögunnar nýja gerð orrustuskipa í bandaríska sjóhernum og skyldi hún bera nafn hans, Trump-gerðin. Trump ákvað einnig að Kennedy Center í Washington skyldi framvegis heita Trump Kennedy Center.

Hégómagirnd forsetans í Washington er í eðli sínu friðsamleg miðað við kúgunina hjá Pútin, Xi og Kim til að halda völdum. Allir standa þeir auk þess að baki hernaðinum í Úkraínu. Xi hefur sýnt Taivan vígtennurnar nú um hátíðarnar. Kim segist vera á lokametrunum að eignast kjarnorkukafbát.

Trump boðar útþenslu, í suðri gagnvart Venesúela og í norðri gagnvart Grænlandi.

Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að kynnast vaxandi foringjaræði. Það hófst í Samfylkingunni sumarið 2022 þegar Kristrún Frostadóttir varð formaður hennar. Völd Kristrúnar birtust fyrir þingkosningarnar 2024 þegar hún beindi spjótum að flokksbróður sínum, Degi B. Eggertssyni. Nú vill hún að Pétur Marteinsson verði oddviti flokksins í borgarstjórnarkosningunum.

Foringjaræðið setur svip á allar yfirlýsingar Kristrúnar um stjórnarsamstarfið við formenn Viðreisnar og Flokks fólksins. Samstaða þeirra þriggja er stjórnin.

Viðreisn er flokkur í kringum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og eitt mál, þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við ESB. Flokkur fólksins er eign formannsins, Ingu Sæland, sem treystir ekki lengur neinum í flokknum til að sitja við hlið sér í ríkisstjórn og stjórnar þremur ráðuneytum með blessun forsætisráðherrans.

Kristrúnu hentar einnig að hafa Þórunni Sveinbjarnardóttur, rúna öllu trausti, sem forseta alþingis og stjórna henni með bendingum úr ráðherrasæti sínu.

Miðflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn samkvæmt könnunum, er einnig foringjaflokkur. Þar dettur engum í hug að mæla gegn stofnanda flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann lætur sig stjórnmál líðandi stundar sífellt minna varða og hverfur á vit Fjölnismanna á 19. öld í hugleiðingum nú um áramótin.

Tveir elstu og rótgrónustu lýðræðisflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, eiga undir högg að sækja. Þar verða forystumenn að tileinka sér ný vinnubrögð og laga flokka að nýjum tímum.

Ég þakka lesendum samfylgdina á árinu 2025.