Anton Sveinn um EES
Svarið verður hins vegar flóknara í höndum Antons Sveins vegna þess að hann misskilur gjörsamlega, vísvitandi eða vegna flokkspólitískra hagsmuna, umræðurnar um bókun 35.
Nýlega kvaddi ólympíufarinn og sundmaðurinn Anton Sveinn McKee sér hljóðs á vettvangi stjórnmálanna. Hann gekk til liðs við Miðflokkinn og er nú formaður Freyfaxa, ungliðahreyfingar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.
Hann skrifaði grein á Vísi föstudaginn 11. október undir fyrirsögninni: Er framtíðin í okkar höndum?
Svarið við spurningunni liggur í augum uppi. Framtíðin er að sjálfsögðu í okkar höndum. Svarið verður hins vegar flóknara í höndum Antons Sveins vegna þess að hann misskilur gjörsamlega, vísvitandi eða vegna flokkspólitískra hagsmuna, umræðurnar um bókun 35. Málstaður Antons Sveins er skýrt dæmi um upplýsingafölsun. Í stað þess að lýsa beinni andstöðu við aðild Íslands að EES-samstarfinu er leið falsana farin.
Í greininni segir Anton Sveinn: „Nú er verið að leggja fram frumvarp á Alþingi um innleiðingu reglu sem segir að lög frá Evrópu verði æðri íslenskum lögum, þessi regla er hin svokallaða „Bókun 35“. Í frumvarpinu felst hugmyndafræðileg uppgjöf gagnvart sjálfstæði og fullveldi landsins.“
Bókun 35 var innleidd hér fyrir rúmum 30 árum. Hún fellur að stjórnarskrá Íslands og skerðir ekki fullveldi þjóðarinnar. Við setningu laga um EES-samninginn varð misræmi milli þess sem segir í 3. gr. laganna og orðalags í greinargerð frumvarpsins. Í fyrsta máli sem snerti túlkun á þessari lagagrein dæmdi hæstiréttur íslenskum borgara í vil þegar spurning reis um réttarstöðu hans á innri markaði Evrópu. Hæstiréttur sneri síðar við blaðinu og skerti rétt Íslendinga, líta bæri á orðalag 3. gr. en ekki það sem segir í greinargerð um hana. Í frumvarpi utanríkisráðherra er mælt fyrir um skýringu á lögum sem alþingi setti án þess að lokaorðið sé tekið úr höndum alþingis. Ráðherrann vill hafa frumkvæði að breytingunni í stað þess að lúta fyrirmælum EFTA-dómstólsins. Anton Sveinn vill að EFTA-dómstóllinn fjalli um málið. Til hvers? Til að verja takmörkun á rétti Íslendinga?
Þá gerir Anton Sveinn EES-samninginn tortryggilegan vegna þess að Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands velti fyrir sér hvort hún ætti að fara að vilja um 30.000 manna sem rituðu undir bænarskrá um að hún neitaði að staðfesta EES-lögin. Forsetinn tók af skarið og ritaði undir lögin. Ekkert nýtt hefur nú komið fram um það mál eins og ætla má af grein Antons Sveins.
Þá segir hann: „Í 30 ár hefur verið vitneskja um að bókun 35 hafi ekki verið innleidd á Íslandi og eru engar ástæður til að breyta því.“ Þetta er ekki rétt eins og að ofan segir. Hæstiréttur breytti túlkun sinni á 3. gr. EES-laganna.
Nú liggur fyrir álit allra fremstu lögfræðinga í EES-rétti auk núverandi og fyrrverandi forseta Hæstaréttar Íslands um að breyta eigi EES-lögunum til stuðnings rétti þeirra sem lúta lögsögu dómstólsins. Að vilja óbreytt ástand er aðför að fullveldi íslenskra borgara eins og sannaðist í dómi hæstaréttar um fæðingarorlofsrétt á liðnum vetri.
Fall er fararheill! Ef til vill má nota þessi orð um grein Antons Sveins. Honum er bent á að snúa sér að öðru en andstöðu við EES-samninginn vilji hann bjarta framtíð Íslands í höndum Íslendinga.