Angist starfsmanns þingflokks VG
Eins og oft hefur birst í pólitískum fréttum Sunnu Valgerðardóttur er henni sérstaklega uppsigað við Sjálfstæðisflokkinn.
Sunna Valgerðardóttir, frétta- og dagskrárgerðarkona á RÚV, varð í lok apríl sl. framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna (VG). Í kynningu þingflokksins sagði að Sunna hefði undanfarin 15 ár starfað og sérhæft sig í pólitískum fréttum, lengst af hjá RÚV og sinnt þar ýmsum hlutverkum, meðal annars sem fréttamaður, vaktstjóri, svæðisstjóri og nú síðast umsjónarkona fréttaþáttanna Þetta helst og Vikulokanna.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem starfsmaður RÚV hverfur þaðan til trúnaðarstarfa fyrir VG. Þar á milli er vængjahurð.
Skjáskot av vefsíðu VG.
Í gær (3. júní) birti Sunna langa Facebook-greiningu á stöðu VG í ljósi skoðanakannana og misheppnaðrar tilraunar Katrínar Jakobsdóttur til að verða forseti. Uppgjafartónninn í greiningu Sunnu bendir til að hún telji VG á grafarbakkanum.
Hún túlkar nýjasta Þjóðarpúls Gallup, 3,3% fyrir VG, á þann veg að við kunni að blasa þing að loknum kosningum án VG í fyrsta sinn á 25 árum frá stofnun flokksins. Hún segir að ekki sé við flokkinn að sakast heldur samstarfsflokka hans í ríkisstjórn frá 2017 undir forsæti flokksformannsins, Katrínar Jakobsdóttur. Í lokin er hún þó á báðum áttum, vinstrið hafi líka brugðist.
Eins og oft hefur birst í pólitískum fréttum Sunnu Valgerðardóttur er henni sérstaklega uppsigað við Sjálfstæðisflokkinn. Hún segir að ríkisstjórnarsamstarfinu hafi „fylgt alls konar mis-kræsilegar málamiðlanir, varnir og yfirlýsingar vegna hinna og þessa mála“.
Sunna nefnir síðan nokkur mál frá síðustu sex árum sem hún telur hafa skaðað VG: „Landsréttur, brottvísanir, Ásmundarsalur, dómsmál, þyrluferð, lögregluofbeldi, Samherji, bankasala og svo mætti lengi telja“. Það einkennir öll þessi mál sem þarna eru nefnd að ekkert þeirra ristir djúpt en þau hafa hins vegar öll verið blásin upp af fréttastofu RÚV.
Greiningin er í raun hluti af grafskrift VG. Að flokkur fráfarandi forsætisráðherra sé í andaslitrunum vegna þessara mála að mati fréttamanns sem hefur sérhæft sig í pólitískum fréttum og snýr sér nú að stjórnmálum er til marks um vinnubrögð og mat í fjölmiðlun frekar en stjórnmálum.
Sunna ætlar að hræða fólk til að halda lífi í VG með því að verið sé „að teppaleggja grimmt fyrir öfluga hægrisveiflu út um allan heim og þar [séum] við sannarlega ekki eyland“. Hún víkur að Höllu Tómasdóttur, nýkjörnum forseta með þessum orðum: „En pastellitaðir hálsklútar eru sennilega meira sjarmerandi en lítt sýnilegur öryggisventill í ríkisstjórninni.“ Hún spyr: „Hversu stór hluti þeirra sem kalla sig vinstrisinnuð ætli hafi sett X við Katrínu Jakobsdóttur?“ Og hún svarar: „25 prósent setti X við Katrínu, þar af var hægrið líklega dágóður slatti.“
Niðurstaða hennar er að reiði og vonbrigði vinstrisinnaðra kjósenda vegna samstarfs VG og Sjálfstæðisflokksins séu „einn veigamesti þátturinn í því að hægrisinnaður fulltrúi kapítalismans vann nokkuð sannfærandi sigur í baráttunni um Bessastaði. Vinstrið kann að vera vont við sig,“ eru lokaorðin.
Réð þingflokkur VG útfararstjóra til starfa í lok apríl 2024?