10.5.2019 10:24

Andstæðingar O3 vilja leynd og lágt stóriðjuorkuverð

Varaforseti ASÍ, Vilhjálmur Birgisson, gagnrýndi Landsvirkjun fyrir mjög hátt verð á raforku til Elkem á Grundartanga, segir Fréttablaðið

Augljóst er að utanríkismálanefnd alþingis hefur farið rækilega í saumana á öllu sem varðar innleiðingu þriðja orkupakkans (O3). Fundi nefndarinnar hafa sótt sérfróðir menn um orkumál og lögfræði. Meira að segja Carl Baudenbacher, fyrrv. dómari við EFTA-dómstólinn í 22 ár og þar af 15 ár sem forseti, kom fyrir nefndina fimmtudaginn 9. maí og gerði grein fyrir 48 bls. áliti sínu um málið. Koma hans og skoðanir hafa valdið nokkru uppnámi meðal O3-andstæðinga utan alþingis.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, formaður og varaformaður Miðflokksins, skipuðu sér fljótt í pólitíska forystu gegn O3. Það kom því á óvart fyrir um það bil mánuði að hvorugur var á þingi þegar umræður voru þar um O3 tillögu utanríkisráðherra. Gunnar Bragi er fulltrúi Miðflokksins í utanríkismálanefnd þingsins en situr ekki fundi þegar gestir koma vegna O3. Sigmundur Davíð er varamaður flokksins í utanríkismálanefnd. Hann sækir ekki fundi nefndarinnar í fjarveru Gunnars Braga.

Það kann að valda þessum fjarvistum þingmannanna þegar O3 er til meðferðar í þingsal eða þingnefnd að þeir vilja ekki sitja undir upprifjun á hlutdeild þeirra sjálfra í meðferð málsins á þingi frá 2010. Baudenbacher bendir meðal annars á að rétti tíminn til að koma að athugasemdum af Íslands hálfu við O3 var á árinu 2014 þegar Gunnar Bragi var utanríkisráðherra.

Elkem-malmblendiElkem á Grundartanga.

Í Fréttablaðinu í dag [10. maí] kemur fram að Frosti Sigurjónsson, forystumaður Orkuna okkar, sættir sig ekki við gagnsæið sem ríkir í raforkusamningum Landsvirkjunar til stóriðjufyrirtækja eftir að alþingi innleiddi orkupakka eitt og tvö. Hann vill að samið sé um raforku á bakvið tjöldin. Það styrki samningsstöðu Íslendinga.

Þetta sjónarmið gengur þvert á það sem forstjórar Landsvirkjunar og Landsnets segja fyrir utanríkismálanefnd: „að frá því innleiðing evrópska orkuregluverksins hófst hefði samningsstaða þeirra styrkst verulega og arðsemi þeirra fyrir þjóðarbúið aukist,“ hefur Fréttablaðið eftir þeim.

Varaforseti ASÍ, Vilhjálmur Birgisson, gagnrýndi Landsvirkjun fyrir  mjög hátt verð á raforku til Elkem á Grundartanga, segir Fréttablaðið

Að bæði Frosti Sigurjónsson og Vilhjálmur Birgisson tali máli stórfyrirtækjanna sem kaupa 80% raforkunnar og vilji verð til þeirra leynilegt og sem lægst varpar nýju ljósi á baráttumál Orkunnar okkar.