Andi valdbeitingar
Valdastéttin á þingi með stuðningi áhrifamanna í fræðasamfélaginu beitir ítrustu valdheimildum gegn andstæðingum sínum og segist gera það til að verja lýðræði og lýðveldið gegn valdaráni.
Ljóst var að það yrði álitshnekkir fyrir stjórnarflokkana ef þeir gætu ekki sýnt stjórnsemi sína og vald þegar Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kæmi hingað til lands 17. júlí.
Viku fyrir komu hennar, fimmtudaginn 10. júlí, nýttu ráðherrar, sem sátu almennt ekki neina þingfundi um veiðigjaldsmálið, sér léttvægt atvik við lok þingfundar kvöldið áður. Hildur Sverrisdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna og 5. varaforseti alþingis, sat á forsetastóli og sleit þingfundi 23.39.
Frá fundi samtaka sem kalla sig Þvert á flokka á Austurvelli í byrjun júní 2025 (mynd mbl,is/Ólafur Árdal).
Morguninn eftir að morgni 10. júlí gaf forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir yfirlýsingu í tilefni af atvikinu um að henni væri skylt að „vernda lýðveldið Ísland“. Guðmundur Ingi Kristinsson mennatamálaráðherra sagði að framið hefði verið „valdarán“. Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra lýsti þeirri hugsýn sinni að fólk væri leitt afsíðis og aflífað án dóms og laga. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra stóð við kjarnorkuknúinn, bandarískan kafbát á Grundarranga og boðaði „orrustuna um Ísland“.
Öfgarnar voru með öðrum orðum takmarkalausar í málflutningi valdastéttarinnar. Sólarhring síðar kom í ljós að þetta var aðeins upptakturinn að fyrirvaralausri tillögu þingforseta um að binda enda á veiðigjaldsumræðurnar. Það var samþykkt og síðan þrjú frumvörp sem þingforseti valdi úr þingmálasúpu ríkisstjórnarinnar. Var þingi slitið mánudaginn 14. júlí eftir að utanríkisráðherra flutti lýðskrumsræðu um strandveiðar.
Tillaga þingforseta spillir samstarfi flokka á alþingi, að minnsta kosti á meðan Þórunn Sveinbjarnardóttir situr á forsetastóli. Á þinginu ríkir vondur starfsandi. Utan þings fagna stuðningsmenn meirihlutans að um 63% aðspurðra segjast hlynntir þessum vinnubrögðum á þingi. Það verði að beita 71. gr. oftar.
Hvað segir þetta allt saman? Valdastéttin á þingi með stuðningi áhrifamanna í fræðasamfélaginu beitir ítrustu valdheimildum gegn andstæðingum sínum og segist gera það til að verja lýðræði og lýðveldið gegn valdaráni.
Á götum úti sjáum við nú aukna hörku í sama anda. Menn af erlendum uppruna við akstur leigubíla leggja ófriðsamlega undir sig stæði þeirra við Leifsstöð, í Aðalstræti og á hafnarbökkum við komu skemmtiferðaskipa. Skvett er rauðri málningu á ljósmyndara Morgunblaðsins á mótmælafundi til stuðnings Palestínumönnum. Lögregluvarðstjóri kemur í sjónvarpsfréttir og fullvissar áhorfendur um að lögregla hafi fulla stjórn á málum í miðborg Reykjavíkur og þurfi ekki aðstoð almennra borgara. Afbrotafræðingur talar í sjónvarpsfréttum án þess að þora að brjóta vandann til mergjar. Það vita þó allir að hann er ekki vegna þess að fólk kemur saman á Austurvelli undir íslenskum fánum eða gengur um miðborgina í svörtum bolum með áletruninni Skjöldur Íslands.
Sé Íslandi ógnað er það ekki af þeim sem ræða um veiðigjöld á alþingi heldur hinum sem mynda ófremdarástand með stóryrðum sínum og hótunum. Þar voru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands í fremstu röð fimmtudaginn 10. júlí. Þeir mögnuðu eitraða andrúmsloftið sem setur sífellt meiri svip á samfélagið.