4.3.2018 9:26

Andi Martins Schulz á landsfundi Samfylkingarinnar

Einkennandi fyrir fréttir af landsfundi Samfylkingarinnar að kvöldi laugardags 3. mars var neikvæðnin og óvildin í garð annarra.

Einkennandi fyrir fréttir af landsfundi Samfylkingarinnar að kvöldi laugardags 3. mars var neikvæðnin og óvildin í garð annarra. Í sjálfu sér kom ekki á óvart að Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. forsætisráðherra og flokksformaður, flytti skammarræðu þegar henni var boðið að flytja hátíðarávarp á þinginu.

Hún taldi litlar líkur á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sæti út kjörtímabilið. Vill Jóhanna að þingmenn flokksins beini spjótum sínum í meira mæli að Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum en minna að Vinstri grænum „þótt þeir hafi villst tímabundið af leið.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með Jóhönnu. Rétt væri að flokkurinn beindi spjótum sínum meira að raunverulegum óvini sínum í stjórnmálum og héldi dyrunum áfram opnum fyrir Vinstri grænum. „Þegar Vinstri græn átta sig á því hvaða asnaskap þau leiddust út í,“ sagði hann.

Jóhanna féll í sama pytt og fréttastofa ríkisútvarpsins að telja Norðurlöndin spillt þótt þau séu í efsta sæti yfir minnst spilltu lönd í heimi. Sagði Jóhanna Ísland „spilltasta Norðurlandið“ vegna „einstaklinga sem gætu ekki haft taumhald á græðgi sinni“. Er græðgi yfirleitt skoðuð í þessari athugun?

Logi Einarsson sagði í stefnuræðu sinni:

„Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa gefið Sjálfstæðisflokknum allt of mikil völd í gegnum tíðina. Í krafti 30 prósent fylgis hefur hann setið í allt of mörgum ríkisstjórnum; þrátt fyrir að 70 prósent þjóðarinnar hugnist hvorki viðhorf hans, né stefna.“

Þetta er hrokafull afstaða formannsins í garð kjósenda. Þeir hafa veitt Sjálfstæðisflokknum gott brautargengi í 89 ár. Samfylkingin var stofnuð fyrir 18 árum til höfuðs Sjálfstæðisflokknum. Hún berst fyrir eigin lífi og fylgir stefnu sem á undir högg að sækja hér og um alla Evrópu.

Neikvæð afstaða Jóhönnu og Loga minnir á innreið Martins Schulz, fyrrverandi leiðtoga og kanslaraefnis þýskra Jafnaðarmanna (SPD). Hann ætlaði að koma, sjá og sigra í landi sínu. Þó leið ekki nema rétt ár þar til honum var varpað á dyr sem mesta fallista SPD frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Neikvæð barátta hans beindist gegn Angelu Merkel þar til hann neyddist til að setjast að stjórnarmyndunarborði með henni og hljóp síðan að lokum á sig með því að heimta að verða utanríkisráðherra í stjórn hennar. Það var kornið sem fyllti mælinn í hans eigin flokki. Í morgun (4. mars) voru úrslit í atkvæðagreiðslu um stjórnarsamstarf SPD við Merkel kynnt: 66% samþykktu það en 34% voru á móti.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti ávarp á landsfundi Samfylkingarinnar. Sagði hann andstæðinga Samfylkingarinnar skorta framtíðarsýn, þeir væru fastir á 20. öldinni í úreltum kreddum og gamaldags hugmyndafræði. „Það eru engar útfærslur, engar hugmyndir, ekkert plan fyrir framtíðina. Planið er fortíðin.“

Þetta eru einmitt orðin sem notuð eru um flokka sem kenna sig við jafnaðarmennsku í Evrópu í upphafi 21. aldarinnar. Dagur B. er sjálfum sér samkvæmur í loftkastalasmíðinni, hún fellur vel að glærumyndasýningunni um að ekki sé húsnæðisskortur undir hans stjórn í Reykjavík.

Neikvæðnin á landsfundi Samfylkingarinnar var í anda vitlausu spurninga Loga formanns til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um vopnaflutninga með flugvélum Atlanta. Logi var með þaulundirbúnar spurningar til þess eins að koma höggi á Bjarna vegna máls sem aldrei hefur verið á hans borði. Það var hins vegar á borði samgöngustofustjóra Þórólfs Árnasonar, borgarstjóra Samfylkingarinnar, eftir að Ingibjörg Sólrún hóf pólitíska eyðimerkurgöngu sína á alþingi.

Hvernig halda menn að Samfylkingarfólkið léti væri Þórólfur ekki úr þess röðum? Hann reyndi eins og Logi að skella skuldinni ranglega á ríkisstjórnina.