Anders Åslund um Moskvuárásina
Í færslu á X (áður Twitter) sunnudaginn 24. mars nefndi Åslund 10 atriði sem hann taldi styðja skoðun sína um einhvers konar opinbera hlutdeild í ódæðisverkinu í Moskvu.
Landflótta Rússi, Galia Ackerman, sagði á vefsíðunni á Desk Russie, sem sérhæfir sig í rússneskum málefnum, margt benda til að Vladimir Pútin og rússneska öryggislögreglan hefðu farið mildum höndum um þá sem síðan réðust á tónleikagesti í Crocus-miðstöðinni í úthverfi Moskvu að kvöldi föstudagsins 22. mars.
Sænski hagfræðingurinn og Kremlarfræðingurinn Anders Åslund.
Galia Ackerman er ekki ein um þessa skoðun. Sænski hagfræðingurinn Anders Åslund sem var Kremlverjum til ráðgjafar á tíunda áratugnum og hefur náin kynni af rússneskum málefnum útilokar ekki einhverja hlutdeild rússneskra yfirvalda í Moskvuárásinni. Hann heldur fast í þá skoðun sína þótt hún njóti ekki stuðnings annarra sérfræðinga í rússneskum málefnum.
Laugardaginn 23. mars gaf Pútin til kynna að úkraínsk stjórnvöld ættu hlut að hryðjuverkinu. Að kvöldi mánudagsins 25. viðurkenndi Pútin loks aðild íslamskra öfgamanna að blóðbaðinu en hélt áfram ásökunum í garð Úkraínumanna.
Þýskir fjölmiðlar hafa vakið athygli á því sem Anders Åslund segir um hryðjuverkið og þar er hann kallaður Kremlarsérfræðingur.
Í færslu á X (áður Twitter) sunnudaginn 24. mars nefndi Åslund 10 atriði sem hann taldi styðja skoðun sína um einhvers konar opinbera hlutdeild í ódæðisverkinu.
Honum finnst grunsamlegt að fjórir menn geti ekið hindrunarlaust í gegnum Moskvu með Kalashnikov-byssur í fórum sínum. Engin öryggisgæsla hafi verið við tónleikasalinn og málmleitartæki óvirk. Þá hafi skothríð staðið í 18 mínútur í tónleiksalnum þar til öryggissveitir komu á vettvang. Moskvulögreglan og öryggislögreglan, FSB, hafi þó stöðvar í næsta nágrenni við Crocus.
Åslund telur einnig grunsamlegt að þeir sem eru grunaðir um verknaðinn hafi ekið af vettvangi glæpsins í sama bíl og þeir komu þangað. Að sögn Åslunds myndi enginn hryðjuverkamaður gera slíkt. Áður en þeir komu til Moskvu óku hryðjuverkamennirnir um fimm klukkustundir í gegnum Rússland, skammt frá landamærum Belarús og Úkraínu. Engu að síður voru þeir ekki skoðaðir af rússneskum vörðum við vegatálma á allri leiðinni. Åslund segir slíkt ferðalag óhugsandi.
Í lok yfirlýsingar sinnar á X vitnar Åslund í kenningar um að Vladimir Pútín hafi áður legið undir grun vegna hryðjuverka. Árið 1999 vegna sprenginga í húsum í Moskvu, 2002 vegna árásar á Dubrovka-leikhúsið í Moskvu og vegna gíslatöku í skóla í Beslan árið 2004. Öll þessi voðaverk hafi hann nýtt sér til að réttlæta hernaðarlega íhlutun í öðrum löndum.
Að morgni þriðjudagsins 26. mars taldi Åslund sig hafa séð enn eina vísbendingu um að kenning sín væri rétt. Hann vísaði í færslu á netinu um að verður í Crocus-hverfinu hafi haft aðgang að vopnum og þar hafi verið viðbragðslið sem hvorki hreyfði legg né lið.
Rússneski þingmaðurinn Alexander Khinshtein er borinn fyrir þessu um vopnin og liðið sem sat vopnað og aðgerðalaust í stöð sinni skammt frá tónleikasalnum og fór ekki á vettvang þrátt fyrir skothríðina þar.