Alvarlegt siðareglubrot á RÚV
Niðurstaða siðanefndar RÚV vegur að trausti til fréttastofu RÚV. Það er ekki traustvekjandi að bregðast við slíkri niðurstöðu með því að berja hausnum við steininn.
Jóhanna Sigurðardóttir flutti á sínum tíma margoft tillögur um siðareglur þingmanna og innan stjórnsýslunnar áður en hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 og í tíð ríkisstjórnar hennar til 2013 jókst vegur slíkra reglna meða setningu laga og öðrum aðgerðum.
Nokkur reynsla er komin á beitingu siðareglna á pólitískum vettvangi meðal annars vegna Klaustursmálsins svonefnda þar sem þingmenn Miðflokksins áttu hlut að máli og vegna ummæla sem píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdótti lét falla um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Í báðum tilvikum hafa viðkomandi þingmenn látið sig niðurstöðu siðanefndar um ósiðlega hegðun þeirra sig litlu varða.
Þingmenn Miðflokksins, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson líktu alþingi við öryggislögreglu í ógnarstjórnarríkjum í andsvörum sínum við áliti siðanefndar Alþingis sem þau sendu forsætisnefnd þingsins 26. júlí 2019.
Siðanefnd þingsins komst að þeirri niðurstöðu
að þingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason hefðu brotið
siðareglur með ummælum sínum á Klaustri en aðrir þingmenn sem tóku þátt í
samræðunum, eru ekki taldir hafa brotið siðareglur.
Nú hefur siðanefnd ríkisútvarpsins (RÚV) komist að þeirri niðurstöðu að Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, hafi brotið „alvarlega“ gegn siðareglum RÚV vegna ummæla hans á samfélagmiðlum. Útgerðarfélagið Samherji kærði Helga og ellefu aðra starfsmenn RÚV til siðanefndarinnar.
Viðbrögð fréttastofu RÚV eru þau að hún standi við allan fréttaflutning af málefnum Samherja og muni halda áfram að fjalla um félagið eins og efni standa til. Siðanefndin fjallaði að vísu ekkert um fréttir RÚV af málefnum Samherja þannig að viðbrögð fréttastofunnar að þessu leyti koma ekki á óvart. Alþingi starfar áfram þótt einstakir þingmenn brjóti siðareglur. Vegna Kaustursmálsins sagði siðareglusmiðurinn Jóhanna Sigurðardóttir hins vegar:
„...brot á siðareglum hafi afleiðingar fyrir viðkomandi. Mætti hugsa sér að þingmaður, sem brotlegur gerist við siðareglur, verði látinn fara í launalaust leyfi tiltekinn tíma sem eftir lifir kjörtímabils í samræmi við alvarleika brotsins . Það væri liður í að endurreisa virðingu Alþingis“.
Vegna niðurstöðu siðanefndarinnar segir í yfirlýsingu á vef RÚV: „Samkvæmt 9. gr. reglna um siðanefnd Ríkisútvarpsins segir að ef niðurstaða nefndarinnar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því. Ekkert kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar um að það eigi við í umræddu tilviki. Niðurstaðan hefur því ekki áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV.“
Þarna birtist sama tvöfeldnin og hjá þingmönnunum sem reyndu að skjóta sér undan niðurstöðu siðanefndar með alls kyns vífilengjum. Niðurstaða siðanefndar RÚV vegur að trausti til fréttastofu RÚV. Það er ekki traustvekjandi að bregðast við slíkri niðurstöðu með því að berja hausnum við steininn.