30.3.2022 9:29

Alþingi: Sex ræður í sandkassaleik

Andrúmsloftið á þingi nú nokkrum mánuðum eftir kosningar er verra en lengi hefur verið. Ný-píratinn Andrés Ingi Jónsson leggur sitt af mörkum til þess.

Andrés Ingi Jónsson sem þreifst ekki í flokki vinstri grænna (VG) á síðasta kjörtímabili og færði sig fyrir kosningarnar í september 2021 í Pírata-flokkinn, flutti í gær (29. mars) sex ræður um fundarstjórn forseta í þingsalnum.

Í öðru orðinu talar þingmaðurinn eins og honum sé sérstaklega annt um eigin virðingu og þingsins en í hinu gengur hann fram á þann veg að nýliða í þingsalnum er nóg boðið og hvetur þingmenn til að hætta „þessum sandkassaleik“.

Í einni ræðulotu sinni um fundarstjórn forseta gerði Andrés Ingi atlögu að Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, vegna þess að hann hefði „saka[ð] fólk um málþóf“ þegar það væri „að halda uppi pólitískri umræðu í einn eða tvo eða jafnvel þrjá klukkutíma um mál sem eru jafnvel mikil álitamál“. Sagði Andrés Ingi ráðherra „halda þinginu í gíslingu“ með þessum rökum:

„Hér á dagskrá í dag erum við með fjarskiptafrumvarp. Í þriðja skipti er verið að mæla fyrir þessu máli. Hvers konar tímasóun er það? Hver er að halda þinginu í gíslingu þar? Jú, Sigurður Ingi Jóhannsson. Hann lagði það fram tvisvar. Hvað með leigubílafrumvarpið? Við erum að ræða það á þriðja þinginu. Við erum að ræða það í fjórða sinn af því að hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson er að halda þinginu í gíslingu með því að leggja málið tvisvar fram, mæla tvisvar fyrir því á sama þingi. Þetta er Íslandsmet í málþófi ráðherra, frú forseti.“

Í síðari ræðu kallar hann Sigurð Inga „gíslatökumann“ vegna endurflutnings frumvarpa og beinir spjótum sínum þingmanni Framsóknarflokksins, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, og sakar hana um að vilja „hefta málfrelsi þingmanna“ af því að hún benti á að undir liðnum fundarstjórn forseta hefði verið talað í sex og hálf klukkustund í mars. Vildi hún að forseti leiðbeindi þingmönnum betur „hvernig eigi að haga sér undir þessum dagskrárlið“.

1034175Ný-píratinn Andrés Ingi Jónsson flutti sex ræður um fundarstjórn forseta í þingsal þriðjudaginn 29. mars og kallaði Sigurð Inga Jóhannsson ráðherra gíslatökumann (mynd: mbl.is).

Þennan þingfund sat varaþingmaður Samfylkingarinnar, Hilda Jana Gísladóttir sem settist á þing mánudaginn 28. mars og sagði þetta vera „alveg ótrúlega dapurt umhverfi sem ég er að labba inn í“. Það væri sér „svo mikil sorg í hjarta að koma inn í þetta ástand og sjá hvað er í gangi einhvern veginn á bak við tjöldin“. Sagði hún þetta ömurlegt ástand „og þjóðinni ekki bjóðandi“. Lýsti hún þeirri von að allir leituðu lausna til að nýta frábæra þekkingu og fólk í þingsalnum „til að vinna fyrir þjóðina og hætta þessum sandkassaleik“.

Hilda Jana er bæjarfulltrúi á Akureyri en hefur lengst af starfað sem fjölmiðlakona á Akureyri, var fréttamaður á Aksjón, Stöð 2 og RÚV og síðar framkvæmda- og sjónvarpsstjóri á N4. Hún er ekki fyrsti varaþingmaðurinn sem fær áfall við að setjast á þing og kynnast liðsandanum þar.

Andrúmsloftið á þingi nú nokkrum mánuðum eftir kosningar er verra en lengi hefur verið. Ný-píratinn Andrés Ingi Jónsson leggur sitt af mörkum til þess – sex ræður um fundarstjórn á einum og sama þingfundinum sýnir frekjulega misbeitinguna á þingsköpunum svo að ekki sé minnst rembinginn í ræðustól. Þetta gerist þegar Logi Einarsson samfylkingarforingi lofsyngur árangursríka samstöðu stjórnarandstöðunnar á þingi.