21.11.2021 10:35

Alþingi hótað

Flest bendir til að göslast sé áfram í umræðum um kæru kosningaúrslitanna til MDE af sama hugsunarleysi og glannaskap og þegar látið var eins og þingmenn væru vanhæfir.

Þegar undirbúningsnefndin svonefnda hóf störf 4. október 2021 á vegum alþingis til að rannsaka útgáfu kjörbréfa – rannsóknin er nú, 21. nóvember, sögð á lokastigi – var því haldið fram í fjölmiðlum án nokkurra raka að þingmenn væru vanhæfir til slíkra rannsókna og til að úrskurða um gildi kjörbréfa. Var rætt um þetta sem raunhæft vandamál þótt fyrir lægi fræðileg niðurstaða um að ekki ætti að efast um vanhæfi þingmanna til að sinna þessu stjórnarskrárbundna hlutverki sínu. Niðurstaðan er meðal annars reist á virðingu fyrir þrískiptingu valdsins og „fullveldi“ alþingis í málum sem varða þingið sérstaklega.

Á meðan undirbúningsnefndin starfar hefur einn fallkandídata sem telur sig beitta rangindum standi lokatalning atkvæða hótað nefndarmönnum undir rós. Hann ætli ekki að taka mark á niðurstöðum þeirra nema þær séu honum í vil. Nú þegar sér fyrir endann á störfum nefndarinnar og afgreiðslu málsins á þinginu tekur frambjóðandinn, Guðmundur Gunnarsson, frá Viðreisn í NV-kjördæmi, af skarið og ríkisútvarpið upplýsir í hverju hótun hans felst.

1304887Unribúningsnefnd kjörbréfanefndar að störfum (mynd: mbl.is).

Í samtali sem birtist á ruv.is laugardaginn 20. nóvember segir hann að „málinu“ verði vísað til „erlends dómstóls“, fréttastofan telur það vera Mannréttindadómstól Evrópu (MDE), samþykki alþingi niðurstöðu sem útilokar frambjóðandann frá þingsetu. Guðmundur segir:

„Ef að það verður niðurstaðan sem ég enn þá neita að trúa að við ætlum að setja okkur sem ungt lýðveldi á táningsaldri í rauninni í þau spor að þá að sjálfsögðu getur maður ekki annað en fylgt málinu alla leið. Það er bara ekkert annað í boði. Ég er sannfærður um það... [Sagan] mun ekki fara um okkur mjúkum höndum og það munu dómstólar erlendis ekki heldur gera.“

Í þessum orðum felst að fyrir Guðmundi vakir að sanna einhvern óljósan áburð á íslenska lýðveldið fyrir erlendum dómstóli, sem fréttastofan telur vera MDE.

Það er sérkennilegt að hvað eftir annað birti ríkisfjölmiðillinn og síðan aðrir fjölmiðlar raunasögu frambjóðandans án þess að kanna hvort einhver innstæða sé fyrir hótunum hans. Hér hefur enginn sakað neinn um kosningasvindl heldur er rætt um klúður og skort á umgjörð atkvæða á kjörstað. Lögreglustjórinn á Vesturlandi nýtti sektarheimild með hraði. Sú ákvörðun hefur ekki verið leidd til lykta fyrir íslenskum dómstólum. Verður niðurstaða þess máls notuð til að fara með talningamálið til MDE í Strassborg?

Telur Guðmundur Gunnarsson unnt að kæra niðurstöðu í atkvæðagreiðslu á alþingi beint til MDE í Strassborg? Vill hann láta á það reyna þar hvort alþingi sé í raun fullvalda í málum sem stjórnarskráin felur því að leiða til lykta?

Hvað hefur Guðmundur Gunnarsson fyrir sér þegar hann fullyrðir að „dómstólar erlendis“ muni „ekki fara um okkur mjúkum höndum“? Á hverju reisir hann þessa skoðun?

Flest bendir til að göslast sé áfram í umræðum um kæru kosningaúrslitanna til MDE af sama hugsunarleysi og glannaskap og þegar látið var eins og þingmenn væru vanhæfir til að sinna þeirri skyldu sem á þeim hvílir við afgreiðslu kjörbréfa. Hvernig væri að staldra við og hugsa málið?