29.10.2025 10:57

Alþingi eða EFTA-dómstóllinn

Að fela EFTA-dómstólnum í Lúxemborg að skera úr um hvort og hvernig íslenskum lögum skuli breytt jafngildir því að framselja pólitíska ábyrgð til erlends dómstóls. 

Enn má sjá greinar þar sem fundið er að því að alþingi fjalli um breytingu á EES-lögunum frá 1993 og setji nýtt ákvæði til lögskýringar svo dómstólar telji sér ekki skylt að skerða rétt Íslendinga samkvæmt aðild Íslands að EES-samningnum. Túlkun Hæstaréttar Íslands að 3. gr. EES-laganna hefur skert rétt þeirra sem njóta lögsögu dómstólsins, einsleitnin sem felst í EES-aðildinni fær ekki að njóta sín til fulls hér.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur fundið að þessari mismunun. Sé fallist á réttmæti ábendingar eða athugasemdar ESA eru tvær leiðir færar: (1) að breyta EES-lögunum eins og utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ákvað að gera með frumvarpi sínu sem enn er óafgreitt á alþingi eða (2) að ESA kæri Ísland fyrir EFTA-dómstólnum, íslenska ríkið grípi þar til varna og láti dómstólinn segja sér fyrir verkum.

EFTA_Court_Logo.svg

Þeir sem hafa hallamælt frumvarpi utanríkisráðherra um lagabreytingu harðast og telja hana brot á stjórnarskránni vegna þess að vegið sé að fullveldi þjóðarinnar boða nú sem leið til sátta vegna frumvarps ráðherrans að valdið til breytinga verði fært frá alþingi til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg. Það ráðist af niðurstöðu dómstólsins hvort íslenskum lögum verði breytt.

Vörn íslenska ríkisins fyrir óbreyttu ástandi hefur veikst með ítrekuðum tilraunum utanríkisráðherra til að fá frumvarp sitt samþykkt. Á alþingi er það aðeins Miðflokkurinn sem er andvígur lagabreytingunni samkvæmt tillögu utanríkisráðherra. Óljóst er hvort þeir sem tala fyrir afturköllun frumvarps ráðherrans og málsmeðferð fyrir EFTA-dómstólnum njóta stuðnings Miðflokksins.

Í tillögunni um að vísa þessu máli til EFTA-dómstólsins í leit að málamiðlun til að tryggja réttarstöðu Íslendinga við framkvæmd EES-samningsins felst viðurkenning á að við óbreytt ástand verði ekki unað, deilan snúist um aðferð við breytingu á EES-lögunum en ekki um hvort breyting sé nauðsynleg.

Hér hefur andstöðu við frumvarp utanríkisráðherra staðfastlega verið hafnað meðal annars með þeim rökum að breyting á íslenskum lögum sé ekki brot á stjórnarskránni, jafnvel þótt einhverjum dytti einhvern tíma í hug að láta á það reyna fyrir dómstóli. Öll lög eru sett undir eftirlit af hálfu hæstaréttar sem getur dæmt þau andstæð stjórnarskránni.

Ágreiningurinn um 3. gr. EES-laganna snýst um það hvernig tryggja megi rétt Íslendinga samkvæmt EES-samningnum. Túlkun hæstaréttar hefur takmarkað þann rétt og skapað ósamræmi við meginmarkmið EES-samstarfsins um einsleitni. ESA hefur bent á þetta misræmi og við því ber að bregðast.

Lýðræðislega og stjórnskipulega er eðlilegast að alþingi og ríkisstjórn taki þessa ákvörðun. Að fela EFTA-dómstólnum í Lúxemborg að skera úr um hvort og hvernig íslenskum lögum skuli breytt jafngildir því að framselja pólitíska ábyrgð til erlends dómstóls. Það grefur undan fullveldi alþingis. Með skýrri og sjálfstæðri lagabreytingu sýnir Ísland að það standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar án þess að afsala sér pólitísku frumkvæði eða valdi til erlendra stofnana.