Almennur gosáhugi
Spurning er hve langt á að ganga í afskiptum af fólki sem kýs að leggja leið sína fótgangandi að eldgjánni jafnvel illa búið í þoku og myrkri.
Fréttir af að menn kveiki í vindlingi með hraunmola í Geldingadal sýna að nálægðin er mikil við lífshættulegt, rennandi hraun. Þarna eru þó eiturgufur sem myndast af jarðeldunum. Þær geta verið banvænar í lautum.
Spurning er hve langt á að ganga í afskiptum af fólki sem kýs að leggja leið sína fótgangandi að eldgjánni jafnvel illa búið í þoku og myrkri. Sterkasta röksemdin fyrir afskiptunum er að týnist einhver eða slasist kalli leiti eða björgun á hættu fyrir þá sem koma til hjálpar. Forráðamenn björgunarsveita huga því að eigin öryggi og félaga sinna þegar þeir vara illa búið og óþjálfað fólk við að stunda næturgöngu í kringum virka eldgjá.
Á ruv.is má lesa að morgni sunnudags 21. mars:
„Talsverður fjöldi fólks virðist hafa lagt leið sína upp að gosstöðvunum við Fagradalsfjall í kvöld [20. mars] og eru sumir þeirra sem hyggjast leggja á fjallið illa búnir til slíkrar ferðar. Björgunarsveitarmenn hafa áhyggjur af stöðunni. Mörg hundruð manns séu úti í myrkrinu, misvel búið.
Steinar Þór Kristinsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Suðurnesjum segir í samtali við Tryggva Aðalbjörnsson fréttamann að hann sé stressaður yfir því sem koma skal. Fólk sé að fara illa búið í átt að gosstöðvunum. Aðstæður séu mjög erfiðar og fólk gerir sér ekki grein fyrir þeim.
Björgunarsveitarmenn hafa talið um 300 mannlausa bíla á bílastæðunum í kringum bæinn í kvöld. Gera megi ráð fyrir að fleiri en einn, og jafnvel fleiri en tveir séu í hverjum bíl.
„Við erum með hátt í þúsund manns úti í móa, í myrkrinu,“ segir Steinar.“
Þá er haft eftir Steinari að verði aðalleiðum
að gosstöðvunum lokað leiti fólk bara að hættulegri leiðum um hraunið svo að
lokun sé ekki „gerleg“.
Kristinn Magnússon tók þessa mynd af gosinu við Fagradalsfjall og birtist hún á mbl.is
Þegar loksins gaus eftir alla skjálftana gerðu sérfræðingar lítið úr umbrotunum, svo ræfilslegt gos hefði varla sést. Það væri engin hætta á ferðum, hraunið rynni í Geldingadal og kæmist ekki þaðan. Vissulega væru eiturgufur en líta ætti til vindáttar til að forðast þær. Gosstöðin væri aðeins nokkra tugi km frá Reykjavík. Síðan hófst tal um „túristagos“.
Almennt hljómaði þetta freistandi fyrir áhugamenn um eldgos. Þeir skipta tugum þúsunda í landinu eins og sjá mátti af umferðinni um Fljótshlíðarveg um árið þegar fólk streymdi að til að sjá bjarmann af gosinu á Fimmvörðuhálsi.
Í þessu efni verður ekki bæði haldið og sleppt. Virkur álitsgjafi á Facebook Guðbjörn Guðbjörnsson segir: „Auðvitað er nóg að vísindamenn, fréttamenn, sumir stjórnmálamenn og sumir lögreglu- og björgunarsveitarmenn sjái öll þessi náttúruundur. Verndum fólk og skipum því að vera heima í bómull!“
Vegna þess hve gosið virkar meinlaust og „ræfilslegt“ er litlar fréttir af því að hafa. Fréttamenn kjósa þá að beina athygli að almenningi sem hefur áhuga á að sjá gosið, náttúruundrið sjálft milliliðalaust. Gönguferðir verða aðalatriðið í fréttum sem kalla fleiri á vettvang. Síðan er beint athygli að þeim sem eru illa búnir. Hvers vegna er ekki hvatt til þess að skipulega og vel sé að leiðsögn staðið gegn gjaldi?