Almannavarnir eða lögregluvald
Í stríðinu við Covid-19 treysta Íslendingar á almannavarnir. Þátttöku allra í átökunum við vágestinn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók undir með Emmanuel Macron Frakklandsforseta í samtali í Kastljósi að kvöldi þriðjudags 17. mars þegar hún líkti átökunum við kórónaveiruna Covid-19 við stríð. Forsetinn endurtók orðið stríð hvað eftir annað í ávarpi sínu mánudaginn 16. mars. Aðgerðunum sem hann boðaði var fylgt eftir með tilkynningu um að 100.000 lögreglumenn og hermenn mundu gæta þess að farið yrði að settum reglum um útgöngubann í Frakklandi.
Forsætisráðherra tók hins vegar sérstaklega fram í Kastljósi að hér þyrfti ekki valdbeitingu til að knýja fólk til að fara að tilmælum eða fyrirmælum yfirvalda. Ástæðan er markviss framganga þeirra sem hafa forystu um kynningu og miðlun upplýsinga af hálfu stjórnvalda og einnig almannavarnakerfið sem er virkjað hér eins og á tímum annarra hamfara.
Af umræðum hér mætti ætla að aðrar þjóðir byggju við sambærilegt kerfi þar sem áherslan er lögð á að virkja menn á hverjum stað til sameiginlegs átaks undir miðstýrði leiðsögn þegar hennar er þörf. Svo er ekki. Annars staðar koma fyrirmælin að ofan og er fylgt fram af valdi.
Íslendingar á Tenerife lýstu til dæmis ástandinu þar á þann veg að þeim hafi liðið eins og í stofufangelsi.
Thorkild Fogde, ríkislögreglustjóri Danmerkur, fullvissaði almenning um að lögreglan mundi sýna umburðarlyndi og aðstoða fólk við að framfylgja samkomubanninu. Frá blaðamannafundi í danska forsætisráðuneytinu.(Ritzau Scanpix)
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna efndu til símafundar mánudaginn 16. mars um málið eins og sjá má hér og einnig efndu þeir til fundar með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna. Þá hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra rætt við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Alþjóðleg samskipti taka mið af aðstæðum hverju sinni. Grunnforsendur breytast að sjálfsögðu ekki þótt talið sé nauðsynlegt að loka landamærum. Þar er um pólitískar ákvarðanir að ræða en ekki sóttvarnir eftir að veiran hefur dreifst um allar jarðir.
Í stríðinu við Covid-19 treysta Íslendingar á almannavarnir. Þátttöku allra í átökunum við vágestinn. Hér er farin sú leið að greina og rekja smitleiðir, setja í sóttkví og einangrun til að slíta smitkeðjuna. Vonandi tekst að halda veirunni innan viðráðanlegra marka með þessari aðferð.
Í Danmörku hafa heilbrigðisyfirvöld valið þann kost að láta almenningi eftir að meta og greina eigin líðan án víðtækrar skimunar. Samhliða þessu er sett bann við að fleiri en 10 hittist og drottningin ávarpar þjóðina og hvetur hana til varkárni og til að fylgja fyrirmælum yfirvalda.
Á dönskum blaðamannafundum um veiruna stendur ríkislögreglustjórinn við hlið forsætisráðherrans til að minna á hvar valdið liggur sé ekki farið að fyrirmælunum. Hann segist ekki líta á hlutverk lögreglunnar að beita valdi heldur að leiðbeina.