Alls 120.000 á dönskum einkasjúkrahúsum árið 2016
Umræðurnar um einkarekstur á heilbrigðissviði hér eru litaðar hugmyndafræðilegum ágreiningi á þann veg að fordómar ráða greinilega miklu hjá mörgum.
Umræðurnar um einkarekstur á heilbrigðissviði hér eru litaðar hugmyndafræðilegum ágreiningi á þann veg að fordómar ráða greinilega meiru hjá mörgum en markmið opinberra fjárframlaga til heilbrigðismála, það er að tryggja sem flestum lækningu meina sinna sem fyrst og best. Að umhyggja fyrir óbreyttu kerfi ráði meiru en leit að bestu lausnum fyrir þá sem kerfið og skattfé almennings á að þjóna leiðir menn aðeins í ógöngur.
Ríkisendurskoðun gaf nýlega út skýrslu um stjórnsýsluúttekt á heilsugæslu í Reykjavík. Að afgreiða þær ábendingar sem þar birtast með þeim orðum að aukið fé leysi vandann er mikil einföldun eða blekking sem birtist í grein eftir lækni í Fréttablaðinu í morgun.
Úttekt ríkisendurskoðunar beinir athygli að flóknu kerfi sem virkar ekki sem skyldi meðal annars vegna þess að læknar og hjúkrunarfræðingar eru ekki samstiga. Þá gætir einnig andúðar innan kerfisins á einkareknum heilsugæslustöðvum.
Á fyrsta áratug aldarinnar tókust danskir stjórnmálamenn hart á um hvort hefja ætti rekstur einkasjúkrahúsa, privathospitaler, í Danmörku. Þeir sigruðu sem vildu leyfa slíkan rekstur. Alls nutu 120.000 Danir þjónustu á einkasjúkrahúsum árið 2016 á kostnað opinberra aðila. Talan árið 2015 var 128.000.
Hér verða umræður um þessi mál í Danmörku ekki raktar eða farið í saumana á skipulagi þeirra heldur er þetta nefnt til að minna á að stjórnmálamenn hér á landi fara villur vega ef þeir halda að varðstaða um norrænt módel í heilbrigðismálum felist í andstöðu við einkasjúkrahús.
Í Danmörku velta menn fyrir sér hvort samdrátt í fjölda sjúklinga á einkasjúkrahúsum þar milli áranna 2015 og 2016 megi rekja til hugmyndafræðilegrar afstöðu þeirra sem ákvarða hvert senda skuli sjúklinga á kostnað opinberra aðila.
Á vefsíðunni Altinget.dk birtist miðvikudaginn 3. maí úttekt um málið og þar segir Sophie Løhde, nýsköpunarráðherra úr Venstre-flokknum, að í hennar huga skipti mestu að sjúklingar séu rannsakaðir fljótt og fái skjóta meðferð.
Kynna þarf sterkari rök en gert hefur verið í umræðum hér ef víkja á tillitinu til sjúklingsins og lækninga hans til hliðar þegar rætt er um skipulag heilbrigðiskerfisins og fjárveitingar til þess.