3.10.2017 10:06

Allir óttast vinstri stjórn

Jafnan þegar vakið er máls á vinstri stjórn í íslenskum stjórnmálum er vegið að þeim sem það gera með ásökunum um hræðsluáróður.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag, þriðjudag 3. október, er  bent á að þegar tölur úr könnun Félagsvísindastofnunar fyrir blaðið séu skoðaðar gefi augaleið hvað sé að óbreyttu í spilunum á næsta kjörtímabili.  Við blasi vinstri stjórn: Vinstri grænir (VG) fá 22 þingmenn samkvæmt könnuninni, Samfylking 5 þingmenn og Píratar 8 þingmenn. Samtals eru þetta 35 þingmenn sem ekki þarf að efast um að myndu reyna að ná saman um stjórnarmeirihluta, segir leiðarahöfundur blaðsins réttilega.

Jafnan þegar vakið er máls á þessum kosti í íslenskum stjórnmálum er vegið að þeim sem það gera með ásökunum um hræðsluáróður. Þessar raddir heyrast einkum meðal þeirra sem eru stuðningsmenn flokka sem keppa að því að mynda slíka stjórn. Flokka þar sem menn telja sér trú um að það jafngildi dauðadómi yfir eigin flokki að taka þátt í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Images-36

Hvers vegna dettur vinstri mönnum í fyrst í hug orðið hræðsluáróður þegar vakin er athygli á líkum á vinstri stjórn? Það er af því að þeir vita hverjar eru afleiðingar slíks stjórnarsamstarfs. Bæði fyrir eigin flokka og samfélagið í heild.

Ein vinstri stjórn hefur setið hér á þessari öld, stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, Samfylkingar og VG, á árunum 2009 til 2013. Þótt stjórnin væri í raun dauð á árinu 2011 sat hún áfram í skjóli Birgittu Jónsdóttur, fráfarandi þingmanns Pírata, og Þórs Saaris sem bauð sig nú eins og 2016 fram í prófkjöri Pírata – von Þórs er að komast á þing að nýju þótt hann hafi einkum varið kröftum sínum til að hallmæla alþingi og starfsháttum þar á meðan hann sat þar.

Markmið Jóhönnu og Steingríms J. var að afsanna þá kenningu að vinstri stjórn gæti aldrei setið heilt kjörtímabil. Afleiðingar stjórnarsamstarfsins urðu þær meðal annars að Samfylkingin varð næstum að engu og VG stóð eftir sem meistaraflokkur í kosningasvikum.

Það þarf engan að undra að vinstri mönnum detti fyrst í hug orðið hræðsluáróður þegar bent er á það sem er í kortunum samkvæmt könnunum og að þeir eigi kost á meirihluta á alþingi.