Alhæfingar og hugleysi í fjölmiðlum
Þeir eru engu betri allsgáðir sem nota ógæfutalið á barnum til að koma óorði á þá sem áttu engan hlut að máli.
Arnar Þór Jónsson héraðsdómari ræðir í Morgunblaðinu í dag (5. janúar) þá áráttu að draga menn í dilka og dæma síðan allan hópinn fyrir það sem einn segir eða gerir. Í þessu felist afturhvarf til ættar- og ættbálkasamfélaga fyrri tíma í stað þess að líta á einstaklinginn sem grunneiningu samfélagsins.
Hann rifjar upp og segir „uggvænlegt“ að „dósent í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands treysti sér til að fullyrða, á málþingi um kvenfyrirlitningu, þöggun og tvískinnung í íslenskri stjórnmálaorðræðu, að orðræða nokkurra þingmanna á vínveitingahúsi sé dæmi um „helstríð og dauðateygjur feðraveldisins“.“
Skorar Arnar Þór á allan almenning „að vera á varðbergi gagnvart slíkum vafasömum staðhæfingum, auk þess sem fjölmiðlum ber að rækja hlutverk sitt með gagnrýnum spurningum og áskorunum um gildar rökleiðslur“.
Þetta eru orð í tíma töluð. Þau eru ábending um að þeir eru engu betri allsgáðir sem nota ógæfutalið á barnum til að koma óorði á þá sem áttu engan hlut að máli.
Þetta gerir til dæmis Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður á baksíðu Mannlífs sem dreift var óumbeðið og leyfislaust í póstkassa föstudaginn 4. janúar. Þar kastar hún í fyrsta lagi skít í Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vegna skoðana hans á umræðum um málið. Í lokin segir hún forkastanlegt drykkjurausið dæmigert fyrir það sem hún kallar „hatursorðræðu valdafólks“. Upphrópanir af þessu tagi eru í ætt við aðrar formælingar sem einkenna þetta mál.
Öðru blaði, Reykjavíkurblaðinu á vegum Ámunda Ámundasonar, var stungið inn um blaðarifuna án leyfis laugardaginn 5. janúar. Ætla hefði mátt að í þessu blaði yrði fjallað um stöðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem er veikari um þessi áramót en nokkru sinni fyrr. Ekki eitt orð um hana. Grein um sósíalraunsæi í áramótaskaupi tekur eina síðu, um áhrifavalda er fjallað á einni síðu, tvær síður eru undir bíóannál ársins og annað efni er smælki til uppfyllingar fyrir utan forsíðumynd af Bjarna Benediktssyni með fyrirsögninni: Rangtúlkar ítrekað opinber gögn. Nafnlaus grein á bls. 2 snýst síðan um að túlka beri tölur hagstofunnar eða niðurstöður í opinberum skýrslum á annan veg en Bjarni gerir.
Nöturlegra fjölmiðlaefni en ólíkar túlkanir á hagtölum þekkist varla. Hver stendur straum af kostnaði við útgáfu á þessari sendingu inn á heimili borgarbúa í ársbyrjun til rífast við Bjarna Benediktsson vegna orða sem hann lét falla í Kryddsíldinni á gamlársdag?
Svarið við spurningunni birtist í efni Reykjavíkurblaðsins. Þetta tölublað er gefið út til að koma höggi á Bjarna Benediktsson og Sjálfstæðisflokkinn. Að enginn höfundur gefi sig fram vegna þessa efnis sýnir hugleysi þess sem borgar.