Álfabakkaskemman: stefna en ekki slys
Álfabakkaskemman er minnisvarði stefnunnar sem Jón Gnarr, Dagur B. Eggertsson og Pawel Bartoszek mótuðu og framkvæmdu með skipulagi Reykjavíkurborgar. Framsóknarmenn horfa á ósköpin kalla þau „stórslys“.
Miklar umræður eru um byggingu stórrar skemmu við Álfabakka í Suður-Mjódd í Reykjavík. Grænn veggur er svo nálægt fjölbýlishúsi að íbúar njóta hvorki sólar né útsýnis. Skemma er reist með byggingarleyfi frá borgaryfirvöldum og í samræmi við nýtingarhlutfall lóðarinnar.
Þarna sjást íbúðarhúsið og skemmnan við Álfabakka í Suður-Mjódd.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir réttilega á Facebook-síðu sinni 14. desember að um sé að ræða byggingu sem falli að skipulagsstefnu meirihluta borgarstjórnar og aðalskipulai Reykjavíkur 2010-2030 sem borgarstjórinn Jón Gnarr staðfesti árið 2013 með aðstoð Dags B. Eggertssonar, þáv. formanns borgarráðs. Reykvíkingar hafa nú kjörið þá báða á þing, Jón fyrir Viðreisn og Dag B. fyrir Samfylkinguna, en saman hafa þessir flokkar framkvæmt þessa skipulagsstefnu síðan 2018.
Einar Sveinbjörnsson: „Segja má að í Álfabakkanum hafi stefnan náð nokkurs konar hápunkti í þéttingu, með blöndun íbúðabyggðar og atvinnustarfsemi í stórum skemmum!“
Einar segir að „gáma- eða gímaldsstíllinn“ hafi verið allsráðandi í skipulagi og byggingum undanfarinn áratug. Ekki bara í Reykjavík heldur almennt í arkitektúr. Í Suður-Mjódd birtist nú „síð-brútalismi í húsagerðarlist“.
Þá tengist það þessari skipulagsstefnu að lóðarhafar leyfi sér að taka yfir rýmið eins langt og lóðareiturinn leyfi. Þeir skeyti engu um þarfir eða lífsgæði nágranna eða þeirra sem nýta umhverfið með einhverjum hætti.
Það er ekki aðeins að „brútalisminn“ birtist í inntaki stefnunnar sem mótuð var 2013. Hann setur ekki síður svip á framkvæmd stefnunnar af borgaryfirvöldum. Henni er lýst á vefsíðu umboðsmanns alþingis 4. desember 2024. Þar er lýst þrautagöngu borgarbúa sem bað Reykjavíkurborg 22. ágúst 2022 um gögn varðandi girðingu á lóðarmörkum og byggingu smáhýsa á tilteknum stað í borginni. Þegar tvö ár voru liðin án þess að svar bærist sendi maðurinn kvörtun til umboðsmanns 6. september 2024. Fimm dögum síðar, 11. september, sendi umboðsmaður umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf og óskaði upplýsing um hvað liði afgreiðslu og meðferð beiðninnar. Það tók þetta svið borgarinnar tvo mánuði að veita umboðsmanni fullnægjandi svör. Er gangur þess máls efni í annan pistil.
Taki það borgarbúa rúm tvö ár með atbeina og harðri framgöngu umboðsmanns alþingis að fá svör vegna girðingar á lóðamörkum segir það allt sem segja þarf um stjórnsýsluna á þessu sviði Reykjavíkurborgar.
Álfabakkaskemman er ekki aðeins hápunkturinn á framkvæmd þéttingarstefnunnar heldur sýnir einnig topp ísjakans þegar litið er til óreiðunnar sem myndast hefur í stjórnsýslu borgarinnar undir vinstristjórn liðinna ára. Þar hefur Viðreisn verið viljugur hjálparkokkur frá 2018, ekki síst í skipulagsmálum með atbeina Pawels Bartoszeks sem nú er kominn á alþingi fyrir Viðreisn.
Álfabakkaskemman er minnisvarði stefnunnar sem Jón Gnarr, Dagur B. Eggertsson og Pawel Bartoszek mótuðu og framkvæmdu með skipulagi Reykjavíkurborgar. Framsóknarmenn horfa á ósköpin kalla þau „stórslys“. Það orð lýsir því ekki sem gerst hefur – þetta er framkvæmd skipulagsstefnu.