16.7.2023 11:31

Almannaheill á gossvæði

Tækju yfirvöld ekki þá afstöðu sem kynnt hefur verið væru þau að bregðast skyldu sinni um að tryggja almannaheill og yrðu látin sæta ábyrgð ef illa færi. 

Yfirvöldin tilkynntu að morgni sunnudagsins 16. júlí að áfram yrði lokað að gosstöðvunum við Litla Hrút á Reykjanesi í fjórða daginn í röð. Ákvörðunin verður endurskoðuð klukkan 9:00 að morgni 17. júlí. Lokunin á að tryggja öryggi viðbragðsaðila og ferðamanna.

Deilt er á yfirvöld fyrir að grípa til þessara ráða og sagt að með þeim sé vegið að ferðafrelsi og jafnvel mannréttindum, mönnum sé heimilt að fara sér að voða, kjósi þeir að gera það.

Þegar augljós hætta er á ferðum eins og um þessar mundir við gosstöðvarnar eiga yfirvöld einfaldlega ekki annan kost en að grípa til varúðarráðstafana og haga framkvæmd þeirra í samræmi við sérfræðilegt mat hverju sinni. Nú berst reykur frá gosi og gróðureldum yfir gönguleiðir að gosstöðvum. Þeir sem fara þar um vegna starfa sinna lýsa aðstæðum sem stórhættulegum og ekki sé unnt að hafast þar við án sérstaks öryggisbúnaðar.

Tækju yfirvöld ekki þá afstöðu sem kynnt hefur verið væru þau að bregðast skyldu sinni um að tryggja almannaheill og yrðu látin sæta ábyrgð ef illa færi. Þá yrðu hrópin um skort á reglum og eftirliti enn háværari en kvartanirnar vegna strangra aðgangsreglna.

Þessar bannreglur fara ekki aðeins illa í þá sem andmæla almennt opinberum boðum og bönnum heldur enn verr í hina sem finnst þeir megi ekki missa af að sjá eldgos.

1426537Kristinn Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók þessa mögnuðu mynd. Le Figaro birti mynd eftir Kristin í fréttinni sem sagt er frá hér í pistlinum.

Á vefsíðu franska blaðsins Le Figaro birtist í dag (16. júlí) frétt um 29 ára franskan ljósmyndara, Valentin, sem hefði í fyrra beðið of lengi og misst af Merardalagosinu . Nú ætlaði hann ekki að missa af neinu og keypti sér því fimm daga ferð til Íslands sl. fimmtudag. Tæpt verður fyrir hann að komast að gosstöðvunum haldist norðanáttin áfram.

Í blaðinu segir að Valentin sé síður en svo eini Frakkinn sem haldinn sé eldfjallaþrá. Rætt er við Morgan de Saint-Cyr sem skipuleggur ferðir undir heitinu Ævintýri og eldfjöll. Hann segir vaxandi eftirspurn hjá sér og margir hafi hringt eftir að gos hófst að nýju á Reykjanesi.

„Allir þrá að sjá að minnsta kosti eitt eldgos á ævi sinni,“ segir Jacques-Marie Bardintzeff, eldfjallafræðingur og prófessor við Paris-Saclay háskólann. Hann stýrir blogg-hópnum Volcanmania, Eldfjallaæði.

Í Le Figaro segir að það séu ekki síst samfélagsmiðlar sem hafi stóraukið áhuga á eldgosum undanfarin ár. Morgan de Saint-Cyr segir að allir vilji eiga af sér „sjálfu“ með eldgos eða hraunstraum í bakgrunni.

Fyrir þá áhugasömustu virðast tækifærin til að komast í tæri við eldgos ótæmandi. Sérfræðingar hjá bandarísku Smithsonian Institution segja að frá upphafi þessa árs hafi gos hafist í meira en 50 eldfjöllum.

Eldgosin eru ekki öll jafnhættulaus. Í tímaritinu National Geographic segir að frá 2010 til 2020 hafi eldogs orðið 1.143 manns að aldurtila, í þeim hópi séu nokkrir ferðamenn.

Í frönsku fréttinni eru ferðamenn hvattir til að fylgj settum varúðarreglum, annað er ábyrgðarleysi að mati Jacques-Marie Bardintzeffs prófessors.