17.2.2022 12:13

Ákveða verður prófkjörsdag

Skiptir miklu að yfirkjörstjórnin á vegum Varðar komist sem fyrst að niðurstöðu um prófkjörsdag og kynni hann. Hver dagur er dýrmætur.

Efnt var til fjölmenns almenns fundar í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, fimmtudaginn 10. febrúar og einróma samþykkt að efna til opins prófkjörs til að verlja frambjóðendur á D-listann vegna borgarstjórnarkosninganna 14. maí 2022.

Var ákveðið að prófkjörið færi fram 12. eða 19. mars. Dagsetning og framboðsfrestur yrðu ákveðin af yfirkjörstjórn á næstu dögum og auglýst sérstaklega.

Nú er vika liðin án þess að fyrir liggi hvorn daginn verður kosið og á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins segir að upplýsingar um það og annað sem prófkjörið varðar séu „í vinnslu“.

Fr_20220210_173419_1Frá fjölmennum Varðarfundi 10. febrúar 2022 þegar prófkjör í Reykjavík var samþykkt (mynd:xd.is).

Það hefur gengið brösuglega hjá Varðarstjórninni að efna til prófkjörs. Fyrir jól var ákveðið að aðeins yrði val milli leiðtoga listans. Eftir jól var þessu breytt en þess í stað gerði meirihluti Varðarstjórnarinnar tillögu um að þeir einir hefðu kosningarétt í prófkjörinu sem skráðu sig með tveggja vikna fyrirvara á kjörskrá.

Á fundinum 10. febrúar var hins vegar samþykkt að kosningarétt hefðu þeir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sem eiga kosningarrétt í Reykjavík við kosningarnar í vor og undirrita inntökubeiðni í sjálfstæðisfélag í Reykjavík fyrir lok kjörfundar. Prófkjörið er þar með opið eins og sagt er. Eina skilyrðið sem sett er að menn skrái sig í flokkinn.

Ekki hefur fengist nein skýring á þeim undirgangi sem var í stjórn Varðar og tafði greinilega fyrir að niðurstaða fengist um tilhögun prófkjörsins. Var óþolinmæði frambjóðenda orðin mikil ogh tilkynntu sumir um framboð sitt áður en almennur fundur fulltrúaráðsins komst að niðurstöðu sinni. Vandræðagangurinn hefur leitt til opinberra umræðna um hvort skipulag Sjálfstæðisflokksins standi í raun flokksstarfinu í Reykjavík fyrir þrifum.

Sú umræða fer líklega fram síðar. Nú skiptir mestu að einbeita sér að því að koma saman góðum, sigurstranglegum framboðslista. Þegar hafa mörg nöfn góðra frambjóðenda birst. Fyrir þá og aðra sem áhuga hafa skiptir miklu að yfirkjörstjórnin á vegum Varðar komist sem fyrst að niðurstöðu um prófkjörsdag og kynni hann. Hver dagur er dýrmætur.