28.10.2021 10:41

Ákærur í Namibíu

Nú í vikunni að lokinni tveggja ára rannsókn málsins hafa þessir Namibíumenn og lögfræðingur þeirra, búsettur í Suður-Afríku, verið ákærðir en enginn starfsmaður Samherja.

Nú eru tæp tvö ár frá því að Kveikur, fréttaskýringaþáttur ríkisútvarpsins, vefsíðan Stundin og WikiLeaks fluttu fréttir um viðskipti Samherja í Namibíu. Viðskiptunum var lýst á þann veg í ríkissjónvarpinu að hlustendur gátu ekki efast um að sekt Samherjamanna.

Ákafinn í málinu var mikill. Strax klukkan 09.00 að morgni 13. nóvember 2019, morguninn eftir að Kveikur var sýndur, vildi fréttastofa ríkisútvarpsins fá það alveg á hreint í samtali við Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, hvort að hann mundi ekki örugglega taka málið upp á alþingi. Logi sagði þetta „stórpólitískt mál“ sem yrði að ræða á alþingi og hann bætti við:

„Þetta auðvitað beinir sjónum að okkar kerfi og auðlindum og mikilvægi þess að við fáum auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við þorum að taka umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið okkar og umgengni um aðrar auðlindir. Það blasir við að þetta er stórpólítískt mál í öllum skilningi þess orðs.“

Svarið var út í hött. Þetta mál hefur aldrei snert stjórnarskrá Íslands eða auðlindastjórn við Ísland. Það snýst um ólögmæta meðferð stjórnmálamanna og embættismanna í Namibíu á fé sem félag í eigu Samherja greiddi til yfirvalda þar fyrir fiskveiðiréttindi í lögsögu landsins. Nú í vikunni að lokinni tveggja ára rannsókn málsins hafa þessir Namibíumenn og lögfræðingur þeirra, búsettur í Suður-Afríku, verið ákærðir en enginn starfsmaður Samherja.

Fishrot-1Ákærðir í Fishrot-málinu í réttarsal í Windhoek, höfuðborg Namibíu

Þarna sannast enn að fjölmiðlamenn fara offari þegar grunsemdir um afbrot eru lagðar á borðið sem sönnun þess að einhver hafi gerst brotlegur. Hve oft skyldi orðið „ákæra“ hafa verið ranglega notuð í fréttum um þetta Fishrot-mál, eins og það heitir í Namibíu? Það er fyrst eftir rannsókn lögreglu og saksóknara sem sannanir um sekt verða tilefni ákæru. Síðan er það dómara að taka af skarið um sekt eða sýknu. Málflutningur í Fishrot-málinu í Namibíu hefst 22. janúar 2020.

Nýlega féll hér héraðsdómur í morðmáli þar sem dómarinn sá ástæðu til athugasemda um kenningasmíði lögreglu, ákæra væri ekki reist á nægum sönnunum. Hvað á kalla það sem einkennt hefur umræður um Fishrot-málið hér?

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sparaði ekki stóru orðin eftir Kveiks-þáttinn. Hún sagði á Facebook að þarna hefði birst mynd af „heimsvaldasinnuðum, gráðugum arðræningjum sem einskis svífast. Körlum sem þykjast samfélagslega ábyrgir hér á landi en gæti ekki verið meira sama um aðstæður þjóðar suður í Afríku. Körlum sem komu í kjölfar vel heppnaðar þróunarsamvinnu og ryksuguðu upp auðlindir í eigin þágu, höguðu sér eins og svívirðilegustu nýlenduherrar. Þróunarsamvinnunni var hætt vegna hrunsins sem varð einmitt vegna svona hegðunar. Ógeðslegt!“

Hér á síðunni sagði ég 13. nóvember 2019:

„Fjölmiðlastormurinn er rétt að byrja og enginn veit enn hvern hann fellir. Síðast þegar Samherji og fréttastofa ríkisútvarpsins lentu í sambærilegum átökum sigraði Samherji að lokum eftir margra ára stríð. Reynslan sýnir að rétt sé að spyrja að leikslokum.“

Þessi orð standa og þola enn dagsins ljós.