20.7.2019 10:20

Áhrif norskra vélabragða

Í þriðja orkupakkamálinu er sérstakt athugunarefni að velta fyrir sér hvernig umræður hafa þróast um það. Þar sést hve við er um berskjölduð.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, segir í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 19. júlí:

„Þó að þriðji orkupakkinn sé jákvætt og nauðsynlegt skref er umræðan um hann víti til varnaðar. Fjölmiðlaumræða um orkupakkann var bókstaflega engin fyrr en árið 2018 samkvæmt Fjölmiðlavaktinni. Það er einu ári eftir að sameiginlega EES-nefndin færði hann undir EES-samninginn og níu árum eftir að pakkinn var innleiddur í ESB. Það er svipað og ef lagafrumvarp færi rólega, þegjandi og hljóðalaust í gegnum Alþingi án umsagna og umræðu en svo færi öll umræða af stað þegar blekið á lögunum væri þornað á Bessastöðum.“

Á Twitter–síðu sinni birtir Konráð þá mynd sem endurbirt er hér og skýrir vel það sem hann segir í ofangreindum texta.

D_13S_dWsAAfTURMynd af Twitter-síðu Konráðs S. Guðjónssonar segir allt sem segja þarf um hvernig umræðurnar um þriðja orkupakkann hafa þróast. Eftir að norska stórþingið samþykkti orkupakkann sneru þeir sem urðu undir þar sér til Íslands í von um að geta í krafti upplýsingafalsana haft áhrif á þingmenn og almenningsálit. Samfélagið reyndist berskjaldað og holskefla tók marga með sér en aðrir urðu hræddir og eru það enn þann dag í dag – að ástæðulausu.

Í þriðja orkupakkamálinu er sérstakt athugunarefni að velta fyrir sér hvernig umræður hafa þróast um það. Þar sést hve við er um berskjölduð.

Eins og mynd Konráðs sýnir skall holskefla á íslensku samfélagi eftir að félagar í norsku samtökunum Nei til EU höfðu samband við tengiliði á Íslandi og mötuðu þá á röngum upplýsingum um afleiðingar þess að Íslendingar innleiddu þriðja orkupakkann. Þetta var íslenskum stjórnvöldum þjóðréttarlega skylt að gera eftir upptöku í EES-samninginn í maí 2017. Eins og myndin sýnir sigldi málið árum saman lygnan sjó í gegnum stjórnarráðið og alþingi. Þar var grandskoðað hvort aðild að O3 stæðist stjórnarskrá.

Sumir hrifust með holskeflunni og máluðu skrattann á vegginn. Aðrir stóðust höggið. Þeir risu til andmæla gegn oftúlkunum og rangfærslum. Undir lok febrúar 2019 náði forysta stjórnarflokkanna fótfestu í málinu. Gerðar voru ráðstafanir til að draga úr ótta þeirra sem urðu hræddastir eða flutu eins og rekadrumbar með straumnum.

Þingsályktunartillaga með lagafrumvörpum var lögð fram á alþingi 1. apríl. Viku síðar voru málin rædd í þingsal. Forystumenn eins flokks, Miðflokksins, létu þá lítið fyrir sér fara. Sömu sögu var að segja um framgöngu þeirra í utanríkismálanefnd Alþingis þegar hún fór í saumana á málinu. Þegar nefndarmenn sendu frá sér álit sýndu miðflokksmenn á spilin og síðan hófu þeir málþóf. Voru umræðurnar um þetta ósköp venjulega EES-mál lengri en um allan EES-samninginn á þingi árið 1992.

Þeir sem brotnuðu í holskeflunni og höfðu ekki þrek til að greina rétt frá röngu hafa einkum beint spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum og forystu hans í því skyni að veikja trú á henni og þar með flokknum. Þetta eru lúaleg vinnubrögð.

Um heim allan er þjóðaröryggi ógnað með vélabrögðum í krafti upplýsingafalsana. Dæmi um slíkar atlögur eru fjölmargar.

Stríðið vegna þriðja orkupakkans er skýrt dæmi um hvaða áhrif erlend íhlutun getur haft á umræður og stjórnmál þjóðar. Þeir sem bognuðu en brotnuðu ekki eiga lof skilið fyrir að gæta þjóðarsóma.