5.5.2017 10:08

Afturhaldssöm stjórnarandstaða

Því má velta fyrir sér hvort stofnun Sósíalistaflokks Íslands og vitleysan sem hann boðar í stefnuskrá sinni valdi slíkum hugaræsingi hjá stjórnarandstöðunni að hún ákveði að etja kappi við úrelt sjónarmið þess flokks.

Margt getur orðið til að stöðva eðlilega þróun samfélaga og umræður um framtíð þeirra. Við sjáum um merki um slíkt í viðbrögðum stjórnarandstöðunnar á alþingi sem hefur ekkert til málanna að leggja annað en deilur um formsatriði eða illmælgi, efnisleg sjónarmið sitja á hakanum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði áherslu á að grunsamlegt væri að rita undir sölusamning ríkisins á landi til Garðabæjar á meðan alþingi væri í páskaleyfi. Þingið hafði þó veitt heimild til sölunnar í fjárlögum.

Nú blasir við að nemendum í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu fækkar og af hálfu yfirvalda í menntamálum er meðal annars rætt hvort bregðast eigi við fækkuninni með sameiningu skóla, Tækniskólans, sem er einkarekinn, og Ármúlaskóla.

Þegar fréttir berast að þessum hugmyndum umturnast þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fulltrúi Pírata í allsherjar- og menntmálanefnd alþingis, segir í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins í dag, föstudag 5. maí:

„Þetta er gamalkunnugt stef hjá Sjálfstæðisflokknum, einkavæðing í kyrrþey, við höfum séð þetta áður og í rauninni líka hjá Viðreisn þar sem að þau hafa innan sinna raða fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem fór svipaða leið að sama marki við að koma á Tækniskólanum og tók svo sjálf sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins. Eftir það og maður spyr sig hvort að það sé verið að búa í haginn fyrir seinni tíma þegar að starfstíma þessarar ríkisstjórnar lýkur. Þetta eru náttúrulega algjörlega ólíðandi vinnubrögð.“

Þetta er einkennileg romsa sem hefur auðvitað ekkert með skólamál að gera heldur einkennist af afturhaldssemi og illvilja. Því má velta fyrir sér hvort stofnun Sósíalistaflokks Íslands og vitleysan sem hann boðar í stefnuskrá sinni valdi slíkum hugaræsingi hjá stjórnarandstöðunni að hún ákveði að etja kappi við úrelt sjónarmið þess flokks.

Hér var á miðvikudaginn vitnað til umræðna í Danmörku um einkarekin sjúkrahús þar sem 120.000 manns leituðu sér lækninga í fyrra. Stefán Ólafsson, prófessor og hugmyndafræðingur stöðnunar í umræðum og félagsleg úrlausnarefni, brást illa við að á þetta væri minnst.

Í dag skal bent á að Mette Bock, menningarmálaráðherra Danmerkur, segist vilja skoða hvort nota eigi alþjóðlegar „streymiþjónustur“ eins og til dæmis Netflix til að dreifa sjónvarpsefni sem framleitt sé með stuðningi ríkisins. Meira máli skipti að koma efni til sem flestra en hver annist dreifinguna.