18.11.2017 12:18

Afrit birt af símtalinu fræga

Morgunblaðið birti afrit af símtali Geirs og Davíðs í dag (18. nóvember). Samsæriskenningarnar fjúka út í veður og vind.

Eitt af því sem mest hefur verið tönnlast á undanfarin ár í fjölmiðlum og á stjórnmálavettvangi er símtal sem Geir H. Haarde forsætisráðherra og Davíð Oddsson seðlabankastjóri áttu um hádegisbil 6. október 2008 þegar lögð var lokahönd á frumvarp að neyðarlögunum og spurningin snerist um hvort bjarga mætti einum banka, Kaupþingi, frá falli. Talið var að það mætti hugsanlega gera með því að seðlabankinn veitti honum 500 m. evru lán. Snerist símtalið um þetta atriði og var af tilviljun hljóðritað.

Áhugamenn um fjölmiðla og stjórnmál ættu að taka saman allar fréttirnar um þetta símtal og samsæriskenningarnar sem smíðaðar hafa verið vegna þess. Virtist það um tíma límið sem hélt andstæðingum Sjálfstæðismanna best saman. Ekki þurfti annað en minnast á símtalið þá sungu þeir einum rómi.

Talið um símtalið minnti á það þegar Hallgrímur Helgason rithöfundur og málsvari Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og annarra Baugsmanna hélt því fram (í Fréttablaðinu 11. september 2006) að starfsmenn Símans hefðu talið 30 símtöl frá forsætisráðuneytinu í ríkislögreglustjóra nokkru fyrir innrásina í Baug árið 2002. Hafði hann ekkert fyrir sér annað en orðróm, sögusagnir og eigin skoðanir.

Morgunblaðið birti afrit af símtali Geirs og Davíðs í dag (18. nóvember). Samsæriskenningarnar fjúka út í veður og vind.

Eftirleikurinn, það er gæsla hagsmuna þjóðarbúsins þegar seðlabankinn seldi danska FIH bankann ætti í raun að vera rannsóknarefni fjölmiðlamanna frekar en eltingarleikur við afrit af þessu símtali. Hér má lesaafritið.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sagði sig úr VG á dögunum með miklum formælingum í garð Sjálfstæðismanna. Heift og hatur í þessa veru má meðal annars rekja til umræðna um símtalið fræga milli Geirs og Davíðs. Árum saman hefur verið vegið að þeim með ásökunum um að hafa brugðist þjóðinni með ímynduðu leynimakki, leyndin yfir símtalinu sanni það.

Síðari tíma árásir í garð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eru í þessa sömu veru þótt það sem notað er til að formæla honum sé af öðrum toga en hrun bankakerfisins.

Heiftin brenglar dómgreind fólks eins og birtist í orðum Drífu Snædal og skítkasti í garð Sjálfstæðisflokksins. Afstaða hennar og orð hljóta að vekja spurningar hjá þeim sem treysta henni til að fara með umboð sitt á vettvangi verkalýðsmála. Ráði heiftin og óvildin svona miklu um skoðanir hennar á mönnum og málefnum er henni ekki fært að taka hlutlæga ákvörðun þegar að málum sem snerta Sjálfstæðismenn kemur.