28.2.2021 10:11

Afrekshugur til Hvolsvallar

Árið 2022 verða 130 ár liðin frá fæðingu Nínu Sæmundsson og yrði það verðugur virðingarvottur við minningu hennar að afsteypa af Afrekshuga risi þá á Hvolsvelli.

Frá því að Hallgerður langbrók bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð hafa margir kvenskörungar gert Hlíðina fræga.

Þess var til dæmis minnst sunnudaginn 26. júlí 2020 að 150 ár voru liðin frá fæðingu Guðbjargar Þorleifsdóttur, húsfreyju í Múlakoti í Fljótshlíð, garðyrkjufrömuðar og vefnaðarkonu. Tæplega 200 manns lögðu leið sína í Múlakot til þátttöku í athöfninni.

Undanfarin ár hefur verið unnið stórvirki við endurnýjun Guðbjargargarðs í Múlakoti og endurreisn gömlu húsanna þar. Þarna var ferju- og gististaður og griðastaður fjölda listamanna sem gerðu garðinn frægan í orðsins fyllstu merkingu.

Milli Hlíðarenda og Múlakots, í brekku skammt fyrir austan Hlíðarenda eru Nikulásarhús og nú Nínulundur til minningar um listakonuna Nínu Sæmundsson sem fæddist þar 1892, yngst 15 systkina, en hún andaðist ógift og barnlaus í Reykjavík 1965. Nína ánafnaði Listasafni Íslands verk sín. Hrafnhildur Schram listfræðingur skrifaði bókina Nína S. sem kom út 6. nóvember 2015 hjá Crymogeu, sama dag og opnuð var sýning á verkum Nínu í Listasafni Íslands.

Það er stutt ganga frá Hlíðarendakirkju í Nínulund en hann var vígður við hátíðlega athöfn 26. ágúst 2000 og þar er afsteypa af styttunni Ung móðir eftir Nínu. Nokkrum vikum síðar, 10. október 2000 var athöfn í Waldorf Astoria hótelinu til að minnast þess að 1931 vann Nína samkeppni um styttu yfir anddyri þessa fræga hótels. Þarna var Ríkey Ríkharðsdóttir frænka Nínu sem hefur beitt sér fyrir því að minning hennar sé í heiðri höfð. Ég sagði nokkur orð og einnig Eric Lang hótelstjóri auk þess sem Egill Ólafsson og félagar fluttu tvö lög.

Artdeco011_223f820a79Afrekshugur í New York.

Styttan á Waldorf Astoria, The Spirit of Achievement, Afrekshugur, er nú eitt af einkennismerkjum New York-borgar. Nína vann samkeppni 400 listamanna um gerð listaverks fyrir hótelið 1931. Nú 90 árum síðar beitir félagið Afrekshugur á Hvolsvelli undir forystu Friðriks Erlingssonar rithöfundar sér fyrir því að afsteypa af styttunni sem er 2.63 m á hæð verði reist á Hvolsvelli, til minningar um fyrstu íslensku konuna sem gerði höggmyndalist að ævistarfi og einn þekkasta listamann úr Rangárþingi.

Ríkisstjórnin veitti þessu framtaki veglegan stuðning á fundi sínum föstudaginn 26. febrúar 2021 þegar þar var samþykktur 4 milljón króna styrkur til þess. Við endurgerð Waldorf Astoria hótelsins fyrir fáeinum árum var styttan tekin niður og Friðrik Erlingsson greip tækifærið og fékk stjórnendur hótelsins og framkvæmdanna til að útvega sér þrívíddarskönnun af styttunni sem nota má til að gera afsteypu.

Árið 2022 verða 130 ár liðin frá fæðingu Nínu Sæmundsson og yrði það verðugur virðingarvottur við minningu hennar að afsteypa af Afrekshuga risi þá á Hvolsvelli.