20.11.2022 9:03

Afrekshugur á heimaslóð

Afsteypan af Afrekshuga er nú í geymslu hjá Friðriki og bíður þess að verða sett upp á Hvolsvelli snemma sumars 2023.

Fyrir nokkrum árum hafði Friðrik Erlingsson, rithöfundur á Hvolsvelli, samband við eigendur Waldorf Astoria hótelsins í New York. Leiddu samskiptin til þess að eigendurnir ákváðu að gefa sveitarfélaginu Rangárþingi eystra þrívíddarskönnun af höggmyndinni Spirit of Achievement, Afrekshuga, sem stendur fyrir ofan anddyri hótelsins. Myndina gerði Nína Sæmundsson úr Fljótshlíð, kunnasta listakona Rangárþings.

Ákveðið var að afsteypa yrði gerð eftir þrívíddarskönnuninni og hún reist á Hvolsvelli. Styrktarfélagið Afrekshugur stofnuðu heimamenn í þeim tilgangi að safna fé til þess að hrinda áformunum í framkvæmd.

Afsteypugerðin Skulpturstöberiet í Svendborg í Danmörku tók að sér að gera afsteypuna eftir þrívíddarskönnuninni. Því verki lauk í júlí 2022.

Afsteypan er nú í geymslu hjá Friðriki og bíður þess að verða sett upp á Hvolsvelli snemma sumars 2023.

Myndirnar sem hér fylgja voru teknar laugardaginn 19. nóvember 2022 þegar stjórn Afrekshuga kom saman til að fagna afsteypunni á heimaslóð listakonunnar.

Stjorn-Afrekshuga19.11.22Srjórn Afrekshuga: Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir listmálari, Friðrik Erlingsson rithöfundur, Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri, Rut Ingólfsdóttir, fiðluleikari og þýðandi, og Guðjón Halldór Óskarsson organisti og kórstjóri. Afsteypan hvílir í rammgerðum kassa við hlið stjórnarinnar.

IMG_6161Styttan er 2,60 m á hæð og hvílir vel í umgörðinni sem smíðuð var um hana fyrir flutninginn með Eimakip frá Danmörku.

IMG_6158Nína merkti sér listaverkið. Hún var valin úr hópi 400 keppenda um gerð þess fyrir rúmum 90 árum.