16.6.2017 9:37

Áfram „áhlaup“ frá Balkanskaga

Fyrir rúmum mánuði sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að gert hefði verið „áhlaup“ á Ísland frá Balkanskaganum.

Í frétt frá útlendingastofnun segir að 82 einstaklingar hafi sótt um alþjóðlega vernd (hælisleitendur) á Íslandi í maí. Samanlagður fjöldi umsókna á fyrstu fimm mánuðum ársins var 370. Það eru tæplega 60% fleiri umsóknir en bárust á sama tíma á síðasta ári. 50 einstaklingar höfðu sótt um vernd 14. júní og er því heildarfjöldi umsókna það sem af er ári 420. Fjölgunin samanborið við árið 2016, bendir enn til þess að fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á árinu geti orðið á bilinu 1700 til 2000.

Umsækjendur í maí voru af 17 þjóðernum, flestir komu frá Albaníu (29) og Írak (12), 46% umsækjenda komu frá ríkjum Balkanskagans. 78% umsækjenda voru karlkyns og 22% kvenkyns.

Um 545 einstaklingar njóta þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um þessar mundir, þar af eru um 235 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi útlendingastofnunar veita um 310 einstaklingum þjónustu í búsetuúrræðum stofnunarinnar.

Þessar tölur sýna að ekki hefur enn tekist að ná æskilegri stjórn á ólöglegum straumi fólks til landsins, fólks sem kemur frá „öruggum“ löndum á Balkanskaga.

Fyrir rúmum mánuði sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að gert hefði verið „áhlaup“ á Ísland frá Balkanskaganum. Hún taldi fyrstu tölur ársins um komu hælisleitenda þaðan ekki endilega gefa rétta mynd af því sem verða mundi. Niðurstaðan á miðju ári er önnur.

Skýringin sem gefin er á fjölda einstaklinganna sem „njóta þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi“ er að hver hælisleitandi njóti þess réttar að mál hans sé skoðað til hlítar. Þegar þetta er sagt vaknar spurningin um hvers vegna unnt er að afgreiða mál Afgana í Noregi á 48 tímum en ekki hér á landi. Má rekja það til minni réttarverndar í Noregi en hér á landi? Þegar nýju útlendingalögin hér voru í smíðum var sagt að fyrirmyndin væri sótt til Noregs. Hvað gerist á leiðinni yfir hafið?