Afneitun og yfirgangur Samfylkingarinnar
Eitt helsta einkenni stjórnarhátta Samfylkingarinnar, forystuflokks meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, er afneitun og yfirgangur.
Eitt helsta einkenni stjórnarhátta Samfylkingarinnar, forystuflokks meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, er afneitun og yfirgangur.
Í fjárhagsáætlun fyrir borgarsjóð á árinu 2026 birtist björt mynd af afkomunni. Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, taldi að óvarlegt væri að reikna með þeim arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sem lægju að baki jákvæðu afkomunni. Hildur benti á að Norðurál keypti mikla orku af OR en nú hefði orðið að draga verulega úr álframleiðslunni vegna bilana. Það hlyti að bitna á afkomu OR. Borgarstjóri Samfylkingarinnar blés á öll slík varnaðarorð.
Greint var frá því að kvöldi mánudagsins 24. nóvember að OR hefði samþykkt breytingar á fjárhagsspá sinni. Norðurál, stærsti einstaki viðskiptavinur OR, hefði tilkynnt að greiðslufall yrði af hálfu fyrirtækisins vegna endurtekinna bilana í álveri þess á Grundartanga. Í fjárhagsspánni segir að arðgreiðslur til Reykjavíkurborgar lækki um tvo milljarða árið 2026.
Enginn veit hvenær framkvæmdunum við Vatnsstíg í Reykjavik lýkur, borgarfulltrúi öskraði á verslunareiganda í götunni (mynd: mbl/Árni Sæberg).
Hildur segir í samtali við Morgunblaðið þriðjudaginn 25. nóvember að þetta komi sér ekki á óvart hún hafi bent á „að það sé verulega alvarlegt að búið sé að koma rekstri borgarinnar þannig fyrir að hann hangi á álframleiðslu á Grundartanga“.
Þetta kemur hins vegar Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra á óvart þar sem álverið hafi áður tilkynnt að það myndi standa við sínar skuldbindingar. „Ég ætla nú ekki að gefa upp vonina með það að Norðurál standi við sína gerðu samninga. Mér finnst líklegt að það verði þannig á endanum,“ segir borgarstjórinn við Morgunblaðið.
Þetta minnir á það sem forveri Heiðu Bjargar, Dagur B. Eggertsson, sagði um leikskólapláss fyrir alla, Miklubrautina í stokk og þjóðarhöllina fyrir kjörtímabilið sem nú er að ljúka án þess að nokkuð hafi verið að marka orð hans.
Að fyrirheit meirihluta borgarstjórnar séu marklaus snýr ekki aðeins að fjárhag borgarinnar eða stórhuga framkvæmdum heldur einnig því sem smærra er í sniðum en skiptir þó borgarana miklu eins og endurnýjun veitukerfa og gatna.
Morgunblaðið hefur sagt fréttir af því að í ágúst hafi átt að ljúka endurnýjun á götunni Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu. Enginn viti nú hvenær framkvæmdunum ljúki og borgaryfirvöld veiti engin svör. Í blaðinu var 21. nóvember rætt við Önnu Þóru Björnsdóttur, eiganda gleraugnaverslunarinnar Sjáðu við Vatnsstíg. Byggingafulltrúi hafði sagt henni að málið væri í höndum kjörinna fulltrúa en þeir eru nú 23 í borgarstjórn. Anna Þóra segir frá orðaskiptum sínum við borgarfulltrúa í skipulagsráði:
„Hann mætti á reiðhjóli á svæðið og í stað þess að eiga við mig samræður, þar sem ég spurði hvort ég ætti ekki rétt á bótum frá borginni vegna margra ára óþæginda og tekjutaps, öskraði hann á mig og sagði að ég væri búin að græða nógu mikið á því að eiga þessa fasteign.“
Af tillitssemi við yfirgangssama hjólamanninn nafngreinir Anna Þóra hann ekki. Hér skal fullyrt að hann sé í Samfylkingunni, hafi setið í borgarstjórn síðan 2010 og beitt sama stjórnunarstíl þar og hann gerði á Vatnsstígnum.