Afléttingaráætlun kynnt
Lengi hefur verið beðið áætlunar um hvernig opna beri landið og nú liggur hún sem sagt fyrir með sjálfsögðum fyrirvörum um að ekki verði nýtt bakslag.
Merkur áfangi náðist í baráttunni við COVID-19-faraldurinn þriðjudaginn 20. apríl þegar ríkisstjórnin tilkynnti áætlun um að öllum sóttvarna-takmörkunum innanlands yrði aflétt þegar stærsti hluti fullorðinna hefði verið varinn með að minnsta kosti fyrri skammti af bóluefni. Stefnt er að markmiðið náist fyrir 1. júní.
Samhliða kynningu á þessu markmiði boðaði ríkisstjórnin tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginregla- en þó má veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði.
Dómsmálaráðherra fær að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum frá hááhættusvæðum samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.
Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.
Lengi hefur verið beðið áætlunar um hvernig opna beri landið og nú liggur hún sem sagt fyrir með sjálfsögðum fyrirvörum um að ekki verði nýtt bakslag. Líkur á því minnka eftir því sem bólusetningum fjölgar.
Þúsundir manna hafa farið í skimun undanfarna daga, flestir sem greinast eru í sóttkví (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).
Á vefsíðunni The Telegraph segir í dag (21. apríl) að í Bretlandi hafi á liðnum mánuðum aðeins 32 af bólusettum þurft sjúkrahúsvist sem sé aðeins brotabrot af þeim 74.000 sem hafi á sama tíma lagst inn á sjúkrahús vegna veirunnar. Segir á síðunni að þessi einstaki árangur, reistur á rauntölum, veki spurningar um hvers vegna breska ríkisstjórnin stigi svo varlega til jarðar í afléttingu sinni, næsta skref ætli hún ekki að kynna fyrr en 17. maí og síðan enn eitt skref 21. júní.
Í Fréttablaðinu birtist í dag fylgiskjal opinberrar skýrslu af vef stjórnarráðsins frá 15. janúar 2021 sem lýsti fyrirkomulagi sóttvarna á landamærunum haustið 2020. Eitt fylgiskjala skýrslunnar var ekki birt í janúar þar sem birtingin var talin „óvarleg“ að mati stjórnarráðsins. Í skjalinu er vísað til gagna „um farþega sem komu hingað til lands á tímabilinu 20. ágúst til 20. nóvember í fyrra og í þeim kemur meðal annars fram að hlutfall þeirra sem greindust jákvæðir í fyrri skimun við landamærin á tímabilinu var hæst meðal fólks með búsetu í Póllandi, eða 2,05 prósent“.
Að það þótti „varlegt“ að leyna upplýsingum í þessa veru er hluti þess tepruskapar sem einkennir umræður um útlendingamál og nú sóttvarnir og er engum til góðs. Miðað við orð sem látin eru falla um þá sem „leyfa sér“ að hafa aðra en opinbera skoðun á ýmsum sóttvarnaaðgerðum er óskiljanlegt að ekki hafi fyrr en nú verið skýrt hispurslaust þessari smitun við landamærin.
Þöggun af þessu tagi þjónar þeim eina tilgangi að afvegaleiða umræður og minnka trúverðugleika þeirra sem verða að njóta trausts.