5.5.2019 10:02

Afhjúpun Halls Hallssonar

Hallur Hallsson segir að aðeins tveir blaðamenn á Íslandi skynji sannleikann í því sem gerist núna í Bandaríkjunum.

Miklar umræður eru víða um svonefnda Mueller-skýrslu í Bandaríkjunum, það er skýrsluna sem sérstakur saksóknari vann vegna ásakana um hvort um leynimakk e. collusion hafi verið að ræða milli kosningastjórnar Donalds Trumps og útsendara Rússa í baráttu Trumps við Hillary Clinton um forsetaembættið árið 2016.

Trump skipti um dómsmálaráðherra áður en skýrslan birtist. Hann vildi mann í embættið sem tæki af sér höggið og það hefur nýi ráðherrann gert. Þetta var Trump nauðsynlegt eftir að repúblíkanar misstu meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Nú standa spjót þingmanna demókrata á nýja dómsmálaráðherranum og sérstaki saksóknarinn Mueller sakar hann um ranga túlkun á skýrslu sinni.

Lach-BarrTestimony-2William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, tekur á sig pólitísku högginn fyrir Donald Trump.

Í færslu á Facebook-síðu sinni vísar Hallur Hallsson í Reykjavíkurbréf helgarinnar og segir að aðeins tveir „blaðamenn á Íslandi“, hann (Hallur) og höfundur bréfsins, Davíð Oddsson, segi „sannleikann um það sem er að gerast í USA“.

Undir lok færslu sinnar segir Hallur:

„Hugsið ykkur vitleysuna, vinir: Bæði Washington Post og New York Times fengu Pulitzer verðlaun fyrir að bera lygina á torg!!! Þeir líkt og íslenskir fjölmiðlar með RÚV í broddi fylkingar verða afhjúpaðir sem falsmiðlar ... og sjoppunni í Efstaleiti verður lokað.

Hægt og hljótt visnar lygin og rotnar og sannleikurinn kemur fram í ljósið ... Hugsið ykkur vinir: Hallur Hallson er eini íslenski blaðamaðurinn sem hefur fylgst með Q ... Þjóðaröryggistofnun Bandaríkjanna ... og miðlað upplýsingum til ykkar ...“

Hér skal ekki tekin afstaða til deilunnar um Mueller-skýrsluna, stöðu Trumps eða bandarískra fjölmiðla. Ágreiningur af þessu tagi í Bandaríkjunum tekur á sig svo margar myndir að mikla yfirlegu þarf til að brjótast að kjarna málsins og skilja hann. Ástæðulaust er að draga í efa réttmæti fullyrðingarinnar um að Halli og Davíð hafi einum blaðamanna hér á landi tekist að finna sannleikann í þessu máli.

Hallur hefur látið verulega að sér kveða á Facebook um þriðja orkupakkann, O3. Okkur sem viljum innleiðingu hans er lýst sem handbendi ESB og Brusselmanna, jafnvel hættulegri manna en sækja að Trump í Bandaríkjunum. Að blaðamaður á borð við Hall telji sér þannig sæma að ganga erinda þeirra hér sem flytja falsfréttir um O3 að undirlagi minnihlutahóps í Noregi veldur vonbrigðum.