Afdrifaríkt andvaraleysi
Í morgunsárið bárust fréttir um að tveir mótmælendur hefðu í skjóli nætur klifrað upp í möstur á Hval 8 og Hval 9, hlekkjað sig og sest þar að á palli
Það er afdrifaríkt andvaraleysi að hafa ekki gert ráð fyrir að mótmælendur myndu reyna að stöðva hvalveiðar nú þegar matvælaráðherra hefur dregið sérstaka athygli að þeim með hringlandahætti sínum og lítilli stjórnvisku.
Í morgunsárið bárust fréttir um að tveir mótmælendur hefðu í skjóli nætur klifrað upp í möstur á Hval 8 og Hval 9, hlekkjað sig og sest þar að á palli. Þá vakna spurningar um hvers vegna eigendur skipanna gerðu ekki sérstakar ráðstafanir til gæslu þeirra á þessum óróatímum.
Mótmæla hvalveiðum með því að hlekkja sig við mastur hvalveiðiskipa (mynd: mbl/Eggert Jóhannessonn).
Þetta er ekki fyrsta tilraunin til að hindra upphaf hvalveiða með lögbrotum. Frægast er að aðfaranótt 9. nóvember 1986 var tveimur hvalbátum sökkt þar sem þeir lágu við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn – á sama stað og hvalbátarnir eru nú.
(Rangur texti: Tveir hvalfriðunarsinnar, Paul Watson og David Howlitt, komu til landsins sem ferðamenn. Þeir unnu skemmdarverk á skrifstofum og kjötvinnslustöð Hvals hf. í Hvalfirði áður en þeir fóru og tóku botnlokur úr hvalbátunum. Við svo búið flugu þeir til Lúxemborgar.)
Uppfært: Það sem hér er birt fyrir ofan og er rangt tók ég af vefsíðu án þess að leita af mér grun. Jóhann Jóhannsson benti á í athugasemd að skemmndarverkamennirnir hefðu verið Rodnay Coronado og David Howitt um þá segir á Wikipediu: „sunk two whaling ships in Reykjavik harbor and sabotaged Iceland's sole whale-processing facility in Hvalfjord. The two members of the Sea Shepherd Conservation Society had spent weeks in Iceland working at a fish processing factory and plotting their action“.
Nú hafa tvær konur, Anahita Babaei kvikmyndagerðarkona og Elissa Biou, komið sér fyrir í tunnum á siglupöllum skipanna. Slökkvilið og lögregla létu sig málið varða án þess að ná konunum niður.
Á bryggjunni er kvikmyndagerðarmaðurinn og hvalveiðimótmælandinn Micah Garen sem blaðamaður Vísis hitti. Átti hann erfitt með að svara spurningum „vegna tilfinninga sinna“. Hann sagði þó:
„Þetta er viðkvæmt af tveimur ástæðum. Önnur er sú að langreyðar sem eru í útrýmingarhættu eiga nú á hættu að vera veiddar og hin er sú að hér er einstaklingur að setja sig í mikla hættu til að reyna að koma viti fyrir fólk. Það vill enginn gera þetta svona. Hún vill það ekki en þetta er hennar síðasta úrræði. Af hverju þarf hún að gera þetta?“
Kvikmyndagerðarfólk hefur sérstaklega beitt sér eftir að Svandís Svavarsdóttir tók U-beygjuna í hvalamálinu. Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið True North fékk Katrínu Oddsdóttur lögmann til að fara í lögbannsmál í því skyni að hindra hvalveiðar. Málið tapaðist en lögmaðurinn spurði í sjónvarpsþætti Vísis „hvort „auðkýfingur með sértæka drápsýki“ eigi að fá að leggja skapandi iðnað á Íslandi í rúst“. Vísaði hún þar til Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf.
Kristján er skotspónn Katrínar og Elizu Biou sem sagði úr mastrinu að morgni mánudagsins 4. september:
„Við viljum ekki að neinn.En ég held að manneskjan sem þeir eigi að vera að reyna að stöðva sé Kristján Loftsson. Þegar bátarnir hans eru farnir og hvalveiðunum hefur verið hætt munum við hætta að mótmæla.“
Kristján Loftsson fer að lögum og vísindalegir ráðgjafar segja stofn langreyða ekki í hættu sé hóflegur fjöldi veiddur hér.
Þeir sem standa að lögbrotum vegna hvalveiða eru þeir sem taka lögin í sínar hendur í nafni langreyða. Stöðuna sem hefur myndast núna má rekja til þeirrar skammsýni að halda að hvalfriðunarsinnar líti á lög og rétt annarra yfir eignum sínum sem hindrun. Þeim er ekkert heilagt í baráttunni.