23.8.2017 8:28

Afdalamennska á Lækjartorgi

Nú er enska þó ekki lengur aðeins notuð í samskiptum fyrirtækja sín á milli heldur gagnvart viðskiptavinum smásöluverslana.

Í Morgunblaðinu er sagt frá því að alþjóðlegur verslunarrisi auglýsi á Lækjartorgi með leyfi borgaryfirvalda. Á því er ekki vakið máls í fréttinni að á risavöxnum innkaupapoka sem settur hefur verið á Lækjartorg er allur texti á ensku og þar stendur stórum stöfum Grand Opening - August 26.

Enska er viðurkennt alþjóðlegt viðskipta- og verslunarmál. Nú er hún þó ekki lengur aðeins notuð í samskiptum fyrirtækja sín á milli heldur gagnvart viðskiptavinum smásöluverslana hér á landi eins og dæmið af auglýsingunni á Lækjartorgi sýnir greinilega.

Fyrirtækjaheiti hér bera æ oftar ensk heiti jafnvel þótt reksturinn sé einkum sniðinn að þörfum Íslendinga. Okurstarfsemi ISAVIA á bílastæðum við flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur meðal annars leitt af sér að stofnað hefur verið einkafyrirtæki sem veitir þá þjónustu að geyma bíl ferðalangs utan flugvallarsvæðisins fyrir mun lægra gjald en á stæðum ISAVIA. Þetta nýja fyrirtæki heitir Base Parking.

Það sem á Lækjartorgi er kallað grand opening verður í Smáralind August 26. Þótt meirihluti þess fólks sem leggur daglega leið sína um Lækjartorg eigi ekki íslensku að móðurmáli er ólíklegt að fyrirtækið sem auglýsir vilji sérstaklega höfða til þess sem viðskiptavina. Að velja ensku á auglýsinguna þykir örugglega „kúl“ þótt í því felist í raun afdalamennska.

Fréttin í Morgunblaðinu snýst um að sótt hafi verið um öll leyfi vegna auglýsingarinnar og þau hafi verið veitt af réttum yfirvöldum Reykjavíkurborgar. Er ekki að efa að þar sé að finna ströng ákvæði um margvíslega hluti þótt ekki sé skylt að auglýsingin sé á opinberu tungumáli borgarinnar. Hvers vegna ekki?