17.7.2024 9:53

Aðlögun að Trump

Forysta Verkamannaflokksins hefur undanfarið lagt rækt við tengsl við áhrifamenn meðal repúblikana til að búa í haginn fyrir samstarf, verði Trump forseti að nýju.

Boris Johnson, fyrrv. leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Breta, fór á flokksþing repúblikana og hitti Donald Trump forsetaframbjóðanda þriðjudaginn 16. júlí til að hvetja hann til stuðnings við Úkraínu verði hann kjörinn í nóvember.

Boris Johnson sagði að Trump væri í „flottu formi“ þrátt fyrir skotárásina á hann laugardaginn 13. júlí. Hann væri sannfærður um að undir ákveðinni forystu Trumps myndi verða staðinn vörður um lýðræðið og árás hrundið á það.

Screenshot-2024-07-17-at-09.50.49Donald Trump og Boris Johnson á flokksþingi repúblikana 16. júlí 2024.

Trump hefur boðað að hann ljúki Úkraínustríðinu á „einum degi“, verði hann forseti. Hann hefur hins vegar verið fámáll um hvernig hann ætli að gera það.

Stuðningsmenn lýðræðis fagna því að Johnson tali máli Úkraínu, ekki síst eftir að Trump tilnefndi varaforsetaefni sitt. Hann valdi JD Vance (39 ára), öldungadeildarþingmann frá Ohio, harðlínumann í andstöðu við bandarískan stuðning við Úkraínu og dæmigerðan einangrunarsinna að mati margra áhrifamanna í Evrópu.

JD Vance hefur hvatt til þess að Bandaríkjastjórn semji beint við Pútin og hans menn um Úkraínustríðið. Hann er þeirrar skoðunar að Úkraínumenn fái aldrei framar ráð yfir landsvæðum sem þeir hafa tapað í orrustum við Rússa síðan í febrúar 2022.

Innan breska Verkamannaflokksins varð uppnám þriðjudaginn 16. júlí þegar minnt var á ummæli Vance frá því í fyrri viku um að bresk vinstristjórn myndi breyta Bretlandi í fyrsta kjarnorkuveldi íslamista. Múslímskir aðgerðarsinnar innan Verkamannaflokksins brugðust mjög reiðir við þessum ummælum og sögðu þau „rasísk“. Forysta flokksins varð hins vegar ekki við kröfum um að mótmæla Vance.

The Telegraph segir að forysta Verkamannaflokksins hafi undanfarið lagt rækt við tengsl við áhrifamenn meðal repúblikana til að búa í haginn fyrir samstarf, verði Trump forseti að nýju. Breski utanríkisráðherrann, David Lammy, hafi hitt Vance nokkrum sinnum undanfarna mánuði og tali um hann sem „vin“. Á sunnudaginn var Sir Keir forsætisráðherra í hópi sárafárra erlendra ráðamanna sem ræddu beint við Trump eftir morðtilraunina.

Sir Keir verður fimmtudaginn 18. júlí gestgjafi í Blenheimhöll á fundi European Political Community, samstarfsvettvangs allra Evrópuríkja sem stofnaður var að frumkvæði Emmanuels Macrons Frakklandsforseta til að ræða utanríkis- og öryggismál Evrópu eftir úrsögn Breta úr ESB.

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands og núv. formaður leiðtogaráðs ESB, hefur frá 1. júlí ferðast um heiminn í óþökk Volodymyrs Zelenskíjs Úkraínuforseta og látið eins og hann sé að koma á friði í Úkraínu með viðræðum við Vladimir Pútín, Xi Jinping Kínaforseta og Donald Trump.

Þetta einkafrumkvæði mælist víða illa fyrir og er ekki talið vænlegt til árangurs. Orbán fær líklega á baukinn frá einhverjum í Blenheimhöll.

Valdboðsráðamenn telja sig styrkjast um leið og Trump sækir í sig veðrið. Óvissan vegna dynta þeirra vekur á hinn bóginn mörgum kvíða.