Aðkreppt ríkisstjórn
Það er í raun óskiljanlegt að talsmenn ríkisstjórnarinnar á Facebook skuli taka þann pól í hæðina að best sé fyrir stjórnina að tala niður þann vanda sem hún á við er að etja.
Á dögunum var vakið máls á því hér á síðunni að það kallaði á opinber viðbrögð að tveir þriðju kerja í álveri Norðuráls á Grundartanga yrðu óstarfhærf í marga mánuði. Þetta áfall kæmi til viðbótar ýmsum öðrum hremmingum í atvinnumálum. Vegna alls þessa væri ríkisstjórnin með vindinn í fangið.
Öskjuhlíð. Fyrsti vetrardagur 2025.
Viðbrögð stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar komu á óvart. Þegar pistillinn birtist á Facebook skrifaði Guðjón Friðriksson sagnfræðingur athugasemd:
„Er ekki rekstur þessa fyrirtækis, Norðuráls, eitthvað einkennilegur? Engar varúðarráðstafanir virðast hafa verið fyrir hendi til þess að bregðast við svona bilun. Hafa forráðamenn þess kannski flotið sofandi að feigðarósi?
Og hvað með móðurfélagið, hið alþjóðlega Century Aluminium Company, Er það ekki ábyrgt?“
Ég svaraði og sagði að ríkisstjórnin hlyti að kanna þetta.
Guðjón Friðriksson:
Já auðvitað. En hún er ekki ábyrg.
Björn Bjarnason:
Hver hefur sagt það? Hún er þó ríkisstjórn.
Síðar kom Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. ráðherra Samfylkingarinnar, á vettvang og sagði:
Nei það er ríkisstjórnin ekki. Ytri áföll sem þau munu gera hvað geta til að milda - það kallast varla vindur í fang.
Þarna á Björgvin G. við að ríkisstjórnin beri ekki ábyrgð á þessu áfalli, því var hvergi haldið fram í pistli mínum. Hann gagnrýnir einnig að ég hafi sagt ríkisstjórnina hafa vindinn í fangið vegna þessa og annarrar þróunar í atvinnumálum. Sú gagnrýni er reist á misskilningi á orðatiltækinu. Í því felst að allt skapi þetta ríkisstjórninni erfiðleika, hún sé aðkreppt vegna neikvæðu þróunarinnar.
Viðbrögð ráðherra sýna að alls ekki er of sterkt að orði kveðið með því að orða vanda þeirra á þann mildilega hátt að segja að þeir hafi vindinn í fangið. Forsætisráðherra hefur hvað eftir annað sagt: „Þetta er grafalvarleg staða hjá Norðuráli.“
Ráðherrann boðaði á Alþingi 23. október að efnahagsforsendur yrðu endurmetnar í tengslum við 2. umræðu fjárlaga. Fjármála- og efnahagsráðuneytið ynni nú „hörðum höndum“ við að reyna að taka inn upplýsingar varðandi „óvissu í hagkerfinu“. Ríkisstjórnin myndi þurfa að bregðast við því þegar þau hefðu „aðeins meiri vissu fyrir framan okkur“.
Það er í raun óskiljanlegt að talsmenn ríkisstjórnarinnar á Facebook skuli taka þann pól í hæðina að best sé fyrir stjórnina að tala niður þann vanda sem hún á við er að etja. Því miður er líklegt að það komi þeim í koll þegar afleiðingar vandans birtast af fullum þunga með auknum álögum.
Þegar gert er lítið úr varnaðarorðum nú er það sama aðferð og beitt var vegna hækkunar veiðigjaldsins. Síðan er bara ráðist á þá sem verða að draga saman seglin vegna hækkunar gjaldanna og þeir sakaðir um blekkingar. Þessi ódýru pólitísku leikbrögð kunna að verða dýrkeypt að lokum.