Aðförin að sjókvíaeldi
Sé litið á nokkrar umsagnir af þeim 910 sem bárust í samráðsgáttina er auðvelt að átta sig á því að um staðlaða og skipulagða andstöðu við ákvæði frumvarpsins um sjókvíaeldi er að ræða.
Í samtali á flugvellinum í Færeyjum við mann í hópi sérfróðra Íslendinga í kynnisferð um fisleldi fræddist ég fyrir nokkrum árum um að Færeyingar stæðu í fremstu röð á laxamörkuðum í heiminum og af þeim mætti margt læra varðandi lög og reglur á þessu sviði.
Nú í vikunni lauk umsagnarferli um frumvarp að nýjum heildarlögum um lagareldi (sjókvíaeldi, landeldi, hafeldi og fjarðabeit). Frumvarpið er 128. gr. auk ákvæða til bráðabirgða, alls 52 bls. lagatexti. Honum fylgir ítarleg greinargerð og var skjalið allt, 120 bls., í samráðsgátt stjórnvalda. Þegar samráðinu lauk þar nú 26. janúar höfðu borist 910 umsagnir.
Í upphafi greinargerðar með frumvarpinu segir að á undanförnum árum hafi lagareldi vaxið hratt og fest sig í sessi sem ein af öflugustu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Vöxturinn hafi að mestu byggst á uppgangi sjókvíaeldis þar
sem ársframleiðsla hafi farið úr tæpum 4 þúsund tonnum í um 50 þúsund tonn. Þetta hafi haft verulega mikil og jákvæð áhrif á byggðaþróun og eflt atvinnulíf, sérstaklega á Vestfjörðum og Austfjörðum þar sem greinin sé ein af meginburðarstoðum í atvinnulífinu.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra í Kastljósi 27. janúar 2026.
Þá er þess getið að ríkisendurskoðun hafi komist að þeirri niðurstöðu við úttekt á sjókvíaeldi árið 2023 að stjórnsýsla og eftirlitsaðilar hefðu ekki náð að fylgja nægilega vel eftir auknum umsvifum greinarinnar. Það sé því eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins að ná betur um vöxt greinarinnar, svo sem með bættri stjórnsýslu og eftirliti.
Sé litið á nokkrar umsagnir af þeim 910 sem bárust í samráðsgáttina er auðvelt að átta sig á því að um staðlaða og skipulagða andstöðu við ákvæði frumvarpsins um sjókvíaeldi er að ræða. Frumvarpið verður nú skoðað bæði í atvinnuvegaráðuneytinu og á alþingi með hliðsjón af þessum umsögnum nema það gildi annað um umsagnir á ensku en íslensku. Í lögum frá 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir að íslenska sé mál stjórnvalda.
Í samráðsgáttinni birtast umsagnir á ensku undir íslenskum mannanöfnum. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði í Kastljósi ríkissjónvarpsins þriðjudaginn 27. janúar að henni þætti „umhugsunarefni að upplifa það að bandarískt stórfyrirtæki“ væri „í herferð með fjöldaframleiddar umsagnir til þess að hafa áhrif á löggjöf hér á landi“ og það næði langt út fyrir svið þessa tiltekna máls og mætti setja þetta „í samhengi við lagasetningu hér á landi varðandi umhverfis- eða varnarmál,“ sagði ráðherrann.
Það er sérkennilegt að heyra þessa athugasemd frá ráðherra flokks sem vill að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem reglur eru þannig að unnt er að setja lög í aðildarlöndunum án þess að þjóðþing þeirra eigi hlut að máli. Það hefur væntanlega verið kannað af ráðherranum og frumvarpshöfundum að lagareldisfrumvarpið falli að kröfum ESB á þessu sviði. Ráðherrann hefur sjálf ritað undir samstarfsyfirlýsingu í sjávarútvegsmálum við kommissar frá ESB. Lögin um lagareldi eru íslensk og útlendingar mega hafa skoðun á efni þeirra, íslenska er hins vegar mál stjórnvalda og þannig á að tala við þau og aðra á samráðsgátt stjórnvaldanna. Á tímum vitvéla er það ekki nein ofraun.