29.6.2021 10:41

Aðdráttarafl danska fordæmisins

Talsmenn dönsku reglnanna telja að skipulögð ásókn farand- og flóttafólks minnki með framkvæmd þeirra.

Danska þingið samþykkti á dögunum lagabreytingu að tillögu jafnaðarmanna um heimild til að senda þá sem leita hælis í Danmörku til dvalar í Afríku á meðan dönsk yfirvöld leggja mat á umsókn þeirra um hæli. Í norska blaðinu Dagens Næringsliv segir að innan norska jafnaðarmannaflokksins, Verkamannaflokksins, sé vilji til að setja reglur um að hælisleitendur séu sendir til lands utan Evrópu á meðan farið er yfir umsóknir þeirra af norskum yfirvöldum.

Nú er stjórnarkreppa í Svíþjóð. Forsætisráðherrann, jafnaðarmaðurinn Stefan Lövfen, sagði af sér mánudaginn 28. júní án þess að boða til aukakosninga. Forseti sænska þingsins tilkynnir í dag (29. júní) hverjum hann veitir umboð til stjórnarmyndunar. Í viðræðum sænskra stjórnmálaleiðtoga ber útlendingamál jafnan hátt. Sænskir jafnaðarmenn kunna að feta í fótspor danskra og norskra flokksbræðra sinna og mæla með því að hælisleitendur dveljist utan Evrópu á meðan tekin er afstaða til umsókna þeirra.

Í breska blaðinu The Times birtist frétt um að breska stjórnin undirbúi breytingar á útlendingalögunum að danskri fyrirmynd: heimilt verði að senda hælisleitendur til búða í öðru landi, hugsanlega í Afríku, á meðan mál þeirra séu til skoðunar hjá breskum yfirvöldum. Fulltrúar bresku ríkisstjórnarinnar hafi rætt við dönsk stjórnvöld um samstarf á þessu sviði og litið sé til Rwanda sem hugsanlegs gistiríkis fyrir hælisleitendur.

TELEMMGLPICT000239511749_trans_NvBQzQNjv4BqnhOKBabfOLZJQBViQ93mSOSWytX2UBqor5GkSKzJO-kDrekkhlaðin tuðra með farandfólk á leið til Bretlands.

Danir einskorða framkvæmd tillagna sinna ekki einvörðungu við Rwanda. Jeppe Kofod, danski utanríkisráðherrann, fer nú til Marokkó til að ræða samstarf um hugsanlega miðstöð fyrir hælisleitendur í landinu, það er í nágrenni strandar Norður-Afríku. Hugmyndir um hælismiðstöð í Eþíópíu urðu að engu vegna ófriðar innan landsins.

Í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 lýsti Kofod Marokkó sem mikilvægu samstarfslandi Evrópu og Danmerkur. Þá reyndu margir farand- og flóttamenn að komast frá Marokkó til Evrópu. Þess vegna væri eðilegt að óska eftir samstarfi við stjórnvöld landsins til að ná tökum á þessum vanda og kveða niður freistingar sem valda honum.

Hér á landi verða oft deilur vegna dvalar hælisleitenda við afgreiðslu umsókna þeirra. Hún getur dregist á langinn. t.d. vegna skorts á samstarfsvilja umsækjandans. Síðan er þeim rökum beitt gegn ákvörðun yfirvalda að viðkomandi hafi dvalist svo lengi í landinu að ómannúðlegt sé að rjúfa ræturnar sem skapast hafi.

Þá varð hér nýlega ágreiningur milli útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála um réttarstöðu þeirra sem neita að virða sóttvarnareglur hér og annars staðar og lengja á þann hátt dvöl sína í landinu.

Talsmenn dönsku reglnanna telja að skipulögð ásókn farand- og flóttafólks minnki með framkvæmd þeirra. Bresku ríkisstjórninni er til dæmis mikið í mun að binda enda á hættulegar ferðir þéttsetinna smábáta með ólögmæta innflytjendur til Bretlands hvort heldur yfir Ermarsund eða frá smyglaraskipum sem flytja fólkið í átt að ströndum Bretlands.

Hér er óhjákvæmilegt að fylgjast náið með frumkvæði Dana. Fari nágrannaþjóðir að fordæmi þeirra fjölgar þeim sem sækja um hæli í löndum þar sem sambærilegar reglur gilda ekki. Stjórnendur ólögmætu mannflutninganna eru með fingurinn á púlsinum.