28.10.2018 9:51

Að lemja hausnum við ESB-steininn

Norðurlandaþjóðir hefðu aldrei látið bjóða sér það sem Eystrasaltsþjóðirnar máttu þola.

Á vefsíðunni Kjarnanum birtist laugardaginn 27. október grein eftir Birnu Stefánsdóttur í tilefni af því að Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, gaf nýverið út bókina The Economic Crisis and its Aftermath in the Nordic and Baltic Countries: Do as We Say and Not as We Do. Í bókinni ber Hilmar saman hvernig Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin tókust á við afleiðingar fjármálakreppunnar.                                         

Í greininni segir:

„Hilmar sagði í samtali við Kjarnann að lönd með sveigjanlegri efnahagsstefnu, sjálfstæðan gjaldmiðil og meira frelsi í ríkisgjöldum séu líklegri til ná sér hratt á strik eftir efnahagsáföll en lönd sem hafa tekið upp evruna. Áður en lönd geta tekið upp evruna þurfa þau að beita miklu aðhaldi í ríkisfjármálum samkvæmt forskrift myntbandalagsins. Hilmir bætir við að fastgengisstefna samhliða miklum niðurskurði í ríkisfjármálum sé ekki líkleg leið til að auka hagvöxt, sér í lagi í hjá nýmarkaðsríkjum eins og Eystrasaltsríkjunum. [...]

Útkoma aðgerðanna árið 2008 [að kröfu Svía]varð sú að efnahagur Eystrasaltsríkjanna var lengur að jafna sig og lífskjör almennings versnuðu mikið. Ástandið jók enn frekar á fólksflótta frá löndunum þremur og er sú staða núna komin upp að Eystrasaltsríkin eru lent í vítahring þar sem unga og vel menntaða fólkið sem gæti eflt hagkerfið leitar út í heim eftir betri tækifærum og auknum lífsgæðum.“

Main-qimg-045d74ec6353e960e75051909e948557

Hilmar segir að Eystrasaltsþjóðirnar hafi svo lengi sætt sig við kúgun erlends valds (Sovétmanna) að þær hafi ekki staðið nógu fast á rétti sínum gegn sænska bankavaldinu sem hafði undirtökin í löndunum og naut stuðnings ESB. Norðurlandaþjóðir hefðu aldrei látið bjóða sér það sem Eystrasaltsþjóðirnar máttu þola.

Í ljósi þess sem smáþjóðir „í skjóli“ ESB hafa mátt þola frá árinu 2008 og í hvaða sporum þær standa enn þann dag í dag er óskiljanlegt að forystumenn Samfylkingarinnar skuli teknir til við að tala að nýju um ESB-aðild og upptöku evru sem raunhæfan og góðan kost fyrir okkur Íslendinga.

Þeir sem kjósa að lemja hausnum við steininn eiga oft erfitt með að sjá hluti í réttu ljósi.