26.4.2020 11:06

Að læra af veiruviðbrögðum

Þegar þjóðir telja sig komnar yfir kúfinn og kúrvan er tekin að sléttast hefst samanburður á aðgerðum sem gripið var til og hvernig að framkvæmd þeirra var staðið.

Margir mælikvarðar eru notaðir við uppgjör baráttunnar við COVID-19. Einn er reistur á því hve margir deyja í einstökum löndum vegna veirunnar. Birt er gagnvirkt kort sem unnt er að skoða á vefsíðum margra fjölmiðla.

Á þessu korti er Ísland kolsvart vegna þess að hér er hlutfall látnir, alls 10, tilfelli 5,063 á milljón íbúa, langhæst allra landa á kortinu. Spánn er næstur í röðinni, 22.902 látnir, tilfelli 4,782 á m. íbúa, Belgía í þriðja sæti 6.917 , tilfelli 3,968 á m. íbúa, Írland 1.063 látnir, tilfelli 3,824 á m. íbúa og Ítalía 26.384 látnir, tilfelli 3,233 á m. íbúa.
Sé litið til annarra Norðurlanda eru tölurnar þessar: Svíþjóð 2.192 látnir, tilfelli 1,785 á m. íbúa, Danmörk 418 látnir, tilfelli 1,491 á m. íbúa , Noregur 201 látinn, tilfelli 1,411 á m. íbúa og Finnland 186 látnir, tilfelli 811 á m. íbúa.

Tölfræðin segir alls ekki allt en þó þetta. Uppfært: Vegna ábendinga bætti ég inn orðinu tilfelli fyrir framan síðari töluna. Tilfellatalan er mjög há hér á landi enda er skimunin hvað mest. Sé litið á tölu látinna á milljón íbúa er hún 29 hér en til dæmis 612 í Belgíu. Ég biðst afsökunar á að hafa valdið misskilningi með birtingu talnanna fyrr í dag.

Danski þingmaðurinn Bertel Haarder er formaður norræna Stjórnsýsluhindrunarráðinu. Hann segir í grein í Jyllands-Posten 26. apríl að hann ætli að beita sér fyrir rannsókn á því hvernig brugðist var við veirunni á Norðurlöndunum. Hlutverk ráðsins er að afnema ýmsar hindranir sem torvelda frjálsa för innan Norðurlanda, til að mynda á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Segir Haarder að ef til vill hafi norrænt samstarf ekki staðist prófið að þessu sinni. Af því verði að læra.

Coronavirus-outbreak-The-countries-affectedÞegar þjóðir telja sig komnar yfir kúfinn og kúrvan er tekin að sléttast hefst samanburður á aðgerðum sem gripið var til og hvernig að framkvæmd þeirra var staðið. Öllum er augljóst að Svíar fóru ekki sömu leið og aðrir. Hér hafa aðgerðir að ýmsu leyti verið svipaðar og í Svíþjóð, ekki eins strangar og í Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Nú um helgina skrifar Daniel Hannan, fráfarandi þingmaður breska Íhaldsflokksins á ESB-þinginu, grein í The Telegraph um sænsku leiðina gegn COVID-19 sem hann lýsir á þann veg að Svíar kunni að koma frá faraldrinum án þess að „efnahagur þeirra sé eins og rjúkandi gígur“ þrátt fyrir það virðist gangur faraldursins sá sami hjá Svíum og annars staðar. Þetta sýni að ef til vill hafi ekki verið nauðsynlegt að herða jafnmikið á boði og bönnum og aðrar þjóðir hafi gert, handþvottur og tveggja-metra-reglan hefðu kannski nægt. Svíar hafi vissulega gripið til annarra ráðstafana en án jafnmikillar opinberrar íhlutunar og annars staðar.

Hannan segir þetta allt með fyrirvara og setur í breskt samhengi, þar hafi líklega verið gengið of langt að hans mati og nú hafi stefnan um „jafna kúrvuna“ breyst í „að hindra að hún rísi aftur“. Forðast beri að falla fyrir kenningunni að úr því að við höfum lagt svona mikið á okkur til þessa sé réttmætt að leggja enn meira á sig. Hún hafi verið notuð til að réttlæta margt sem betur hefði verið ógert.

Í grein sinni vitnar Daniel Hannan til þess sem prófessor Isaac Ben-Israel, stjórnandi rannsókna í öryggismálum við Tel Aviv-háskóla og formaður Rannsókna- og þróunarráðs Ísraels, segir um að COVID-19-faraldurinn nái hámarki á 40 dögum áður en fjari hratt undan honum. Prófessorinn sagði:

„Gangur faraldursins virðist sambærilegur – hröð fjölgun smita sem nær hámarki í sjöttu viku og tekur að lækka frá áttundu viku – þetta sama gerist í öllum löndum þar sem sjúkdómurinn greinist, án tillits til þess hverjar gagnaðgerðirnar eru.“

Um leið og tekið er undir með Hannan, að ísraelski prófessorinn kunni að hafa rangt fyrir sér, skal áréttað að hér er vitnað í breska stjórnmálamanninn til að sýna hvernig umræður COVID-19 þróast. Það verður æ erfiðara halda efnahagslífinu í fjötrum þegar efasemdarröddum fjölgar. Ég held þó fast í þá skoðun að réttmætt sé að reka flóttann með ströngu aðhaldi hvað svo sem menn verða vitrir eftir á.