15.9.2022 10:01

Að flagga skoðun Pútins

Eftir ofbeldi Rússa árið 2014 breytti NATO um varnarstefnu í Evrópu, leit að nýju til varna landamæra þar í stað þess að leggja áherslu á verkefni utan Evrópu, í Afganistan og Líbíu.

Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. ráðherra, kynnir í Morgunblaðinu í dag (15. september) það sjónarmið Kremlverja að spenna í samskiptum Rússlands og Vesturveldanna frá falli Sovétríkjanna „tengist ekki síst útfærslu NATÓ-aðildar á fyrrverandi ríki Varsjárbandalagsins sem lagt var niður 1991“.

Orðin „útfærsla NATO-aðildar“ má skilja á þann veg að um skipulagða áætlun um stækkun NATO hafi verið að ræða. Svo var ekki. Þjóðirnar sem áður lutu valdi Sovétmanna vildu tryggja frelsi sitt og öryggi og töldu það best gert með aðild að NATO, opnu varnarbandalagi í þágu frelsis og friðar.

Þar til Rússar undir forystu Pútins hófu stríð á hendur Úkraínumönnum árið 2014 og hrifsuðu af þeim Krímskaga þvert á loforð sem þeir gáfu 1994 um að virða landamæri Úkraínu var stækkun NATO í Evrópu alls ekki vegna aðgerða gegn Rússum eða Rússlandi.

Eftir ofbeldi Rússa árið 2014 breytti NATO um varnarstefnu í Evrópu, leit að nýju til varna landamæra þar í stað þess að leggja áherslu á verkefni utan Evrópu, í Afganistan og Líbíu.

Úkraínumenn höfðu engan mátt til að takast á við rússneska herinn 2014. Þeir höfðu hvorki hergögn né þjálfaða hermenn. Þeir töluðu síðan fyrir daufum eyrum á Vesturlöndum eftir 2014 þegar þeir fóru fram á öflug varnarvopn samhliða því sem þeir hófu að styrkja eigin herafla.

Þjóðverjar súpa nú seyðið af stefnunni sem þeir fylgdu um að viðskipti við Rússa tryggði frið og öryggi betur en fælingarmáttur vopna sem Rússar óttuðust. Frakkar sitja á hliðarlínunni og forystumenn í austurhluta Evrópu segja að símtöl Emmanuels Macrons Frakklandsforseta við Pútin jafnist á við að einhverjum hefði dottið í hug að það dygði að hringja að vestan í Adolf Hitler til að stöðva aðra heimsstyrjöldina.

9FECAD91-5C10-4CA9-8A6D-FD6D4C10D07E_cx4_cy3_cw94_w1200_r1Úr stríði Pútins í Úkraínu

Hjörleifur Guttormsson nefnir ræðu Vladimirs Pútins í München 2007 þar sem hann boðaði þá stefnu að einpóla heimur undir forystu Bandaríkjamanna yrði ekki til frambúðar. Orð Pútins um samtöl ráðamanna á rústum Sovétríkjanna um að þjóðum í austurhluta Evrópu yrði bannað að ganga í NATO eru hluti af spunanum sem Rússar notuðu til að afsaka ofbeldið gagnvart Úkraínumönnum. Pútin studdist þó ekki við þann spuna þegar hann gaf fyrirmælin um innrásina. Í hans huga er Úkraína ekki annað en hérað í Rússlandi, án eigin landamæra. Þar eiga leppar hans að sitja við völd.

Ef Pútin óttast innrás NATO hvers vegna flytur hann nú hermenn frá landamærum Noregs og Finnlands til Úkraínu? Hann afhjúpar hvað eftir annað eigin lygar.

Þegar litið verður til baka að loknu þessu stríði núna, hvernig sem það fer, verður undrunarefnið að aðild Úkraínu skyldi ekki hafa verið fagnað í NATO árið 2008.

Þar réð söguleg skammsýni, reist á rangri skoðun Þjóðverja og Frakka á því hvað vekti fyrir Pútin. Hann var hvorki unnt að hemja með því að kaupa af honum gas né tala við hann í síma.