6.4.2019 13:07

ACER-forstjóri á ársfundi Orkustofnunar

Órökstudd og röng afstaða til ACER hér á landi hæfir ekki þeim sem vilja almennt láta taka mark á sér í þjóðfélagsumræðum. ACER ógnar ekkert Íslendingum.

Alberto Pototschnig, starfandi forstjóri ACER, Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði ESB, var hér á landi 3. apríl og flutti erindi á ársfundi Orkustofnunar. Hver sem hlustar á erindið  heyrir hve fráleitur áróður er fluttur af andstæðingum þriðja orkupakkans um hlut þessarar stofnunar hér á landi. Hér má tengjast útsendingu af ársfundinum.

Hlutverk ACER er að tryggja sem besta nýtingu á sameiginlegu flutningskerfi orku meðal aðildarlanda ESB. Ísland er utan ESB og ACER hefur ekkert vald gagnvart Íslendingum. Í máli forstjórans kom fram að aðeins aukin samhæfing við dreifingu orku hefði aukið hagkvæmni um einn milljarð evra á ári notendum til hagsbóta. Orkuverð væri mismunandi milli þjóða en betri og hagkvæmarfi nýting kæmi öllum til góða.

1002Þessi teikning ber vott um svo mikla vanþekkingu þess sem gerir hana að hann gerir sig með öllu marklausan.

Þótt alþingi tæki einhvern tíma ákvörðun um sæstreng félli Ísland ekki undir ACER sem hefði aðeins umboð gagnvart ESB-ríkjunum. Starfsemi ACER snertir Íslendinga ekki á neinn hátt. Þriðji orkupakkinn felur hins vegar í sér aukna neytendavernd og veitir Orkustofnun sterkara umboð til þess að krefjast úrbóta á dreifikerfi hér í þágu notenda.

Órökstudd og röng afstaða til ACER hér á landi hæfir ekki þeim sem vilja almennt láta taka mark á sér í þjóðfélagsumræðum. ACER ógnar ekkert Íslendingum.

Því ber að fagna að unnt er að hlusta á erindi ACER-forstjórans á vefsíðu Orkustofnunar því að hafi einhver fjölmiðill kynnt viðhorf hans fór ekki mikið fyrir því. Raunar rakst ég fyrst á tilvitnanir í orð hans hjá einstaklingum á Facebook.

Einar S. Hálfdánarson, hrl. og endurskoðandi, er einn þeirra sem hefur lagt sig fram um að kynna sér umræðurnar um þriðja orkupakkans. Hann segir í Morgunblaðinu í dag (6. apríl):

„Afstaða Sigmundar Davíðs og Gunnars Braga er sérkapítuli. Á augabragði hafa þeir fundið út að þriðji orkupakkinn sem þeir sjálfir innleiddu og nú stendur til að fullgilda (nema nú með miklum nýjum fyrirvörum) er ómögulegur. Þetta er líkt og Indriði [H. Þorláksson, ráðgjafi Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Getssonar] hefði snúist gegn Icesave! Málflutningurinn er makalaus miðað við forsöguna og markmiðið þeim ekki til sæmdar; að reka fleyg í raðir sjálfstæðismanna til að afla þaðan fylgis.

Það eru mörg aðkallandi verkefni sem kalla á athygli. Deilan um þriðja orkupakkann er um keisarans skegg. Ég fullyrði að útganga úr EES er óskadraumur Samfylkingar og Viðreisnar. Þá yrði eftirleikurinn auðveldur og leiðin í ESB greið. Allt annað er draumsýn. - Enginn er eyland.“