11.11.2022 10:36

Ábyrgðarleysi Viðreisnar

Að flokkur opinberi sig jafn ábyrgðarlausan og Viðreisn gerir í fjármálum borgar og ríkis er sem betur fer sjaldgæft. Popúlisminn verður þó varla skýrari.

Viðreisn stendur að meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur. Starfsháttum hans lýsir Jónas Elíasson, fyrrv. verkfræðiprófessor, á þennan hátt í Morgunblaðinu í dag (11. nóv.):

„Helstu mál borgarinnar eru í hreinu rugli. Þetta eru fjármál, samgöngumál og skólamál. Þarna er allt á ferðinni sem hægt er að gera rangt. Stöðugur taprekstur, alröng stefnumörkun í samgöngum og vanhirða skólahúsnæðis. Niðurstaða síðustu kosninga var í samræmi við þetta, meirihlutinn féll.“

Eftir kosningar til borgarstjórnar 2018 bjargaði Viðreisn Degi B. Eggertssyni frá falli úr borgarstjórastólnum. Nú í vor gengu framsóknarmenn til liðs við Samfylkingu, Viðreisn og Pírata og mynduðu meirihluta. Hann stendur nú ráðalaus andspænis vandanum sem Jónas Elíasson lýsir í grein sinni.

DbosJntX0AAnJrbKjörorð Viðreisnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar reyndist einfaldlega blekking. Hvenær ætli flokkurinn komist í raunheima?

Helsta skýring borgarstjóra og viðreisnarfulltrúans Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs 2018 til 2022 er sú að um ofmönnun sé að ræða í borgarskerfinu. Borgarstjóri boðaði uppsögn á „ónauðsynlegu“ starfsfólki og nefndi leikskóla þar til sögunnar. Þórdís Lóa sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 6. nóvember:

„Við megum ekki gleyma því að við fórum í að stíga á bensíngjöfina í Covid. Við réðum fleira fólk, við fórum í vinnumarkaðsaðgerðir og við gerðum þetta allt. Við yfirmönnuðum hjá okkur velferðarþjónustuna, skólaþjónustuna og leikskólaþjónustuna. Og við gerðum þetta allt til þess að mæta sóttvarnaraðgerðum.“

Ofmönnun vegna sóttvarnaaðgerða er skýring fyrrv. formanns borgarráðs á að Reykjavíkurborg rambar nú á barminum „meðan skuldabréf Reykjavík seljast á fjármálamörkuðum, “ eins og Jónas Elíasson skrifar. Þórdís Lóa kynnti „ónauðsynlega“ fólkið sem borgarstjóri vill að hverfi úr störfum hjá borginni. Jónas segir í grein sinni að hjá borginni séu „2.000 manns fleiri á launaskrá en tekjugrundvöllur“ leyfi og borgin tapi á því „einum til tveimur milljörðum á mánuði hverjum“. Það sé auðvitað „glapræði“ að leyfa því að halda áfram.

Framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson , formaður borgarráðs, talaði ekki af miklu raunsæi á dögunum við ríkisútvarpið og sagði að sparnaðaraðgerðir meirihlutans legðust ekki á almenna borgarbúa. Síðan hafa margvíslegar gjaldskrárhækkanir verið kynntar. Starfsmennirnir 2.000 sem taldir eru „ónauðsynlegir“ falla ef til vill utan hópsins sem formaður borgarráðs hafði í huga?

Þetta er óglæsileg mynd. Flokkurinn Viðreisn hefur tekið þátt í að teikna hana. Viðreisn tileinkar sér í æ ríkari mæli baráttuaðferðir mið-vinstrisinnaðra flokka popúlista sem eiga sífellt meira undir högg að sækja víða um lönd vegna ábyrgðarlausrar stefnu í útlendingamálum og efnahagsmálum.

Viðreisnarmönnum finnst engu skipta að kostnaður ríkisins af framkvæmd útlendingastefnunnar sé 10 til 12 milljarðar á ári. Þeir vilja ekki heldur að skrúfað sé fyrir fjárstreymi vegna óuppgerðra skulda IL-sjóðs.

Að flokkur opinberi sig jafn ábyrgðarlausan og Viðreisn gerir í fjármálum borgar og ríkis er sem betur fer sjaldgæft. Popúlisminn verður þó varla skýrari.