22.9.2018 10:18

Ábyrgðarkennd Katrínar - hentistefna Gunnars Braga

Fyrir myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur lá fyrir að samþykkt þjóðaröryggisstefnunnar árið 2016 auðveldaði stjórnarsamstarf VG og sjálfstæðismanna.

Gunnar Bragi Sveinsson, fulltrúi Miðflokksins í utanríkismálanefnd alþingis, gaf sér ekki tíma frá mikilvægum verkefnum til að þiggja boð bandaríska sendiráðsins í Reykjavík þriðjudaginn 18. september til ráðherra, þingmanna og sendiherra um að fljúga út í flugmóðurskipið Harry S. Truman undir suðurströnd Íslands. Hefði hann farið og kynnt sér málið hefði hann líklega ekki dottið í þann pytt að fullyrða eins og hann gerir í Morgunblaðinu í dag að varnaræfing NATO Trident Juncture 2018 sé hafin. Það gerist ekki fyrr en eftir um mánuð í Noregi en undanfari hennar verður hér á landi um miðjan október.

Gunnar Bragi segir hins vegar réttilega: „Æfingin er til þess að æfa bandamenn okkar í því að verja eyjuna okkar og þjóðina.“ Þetta er í stuttu máli æfing með vísan til 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll. Einmitt þess vegna vekur sérstaka athygli að þjóðir utan NATO, Svíar og Finnar, taka þátt í æfingunni.

MaxresdefaultEftir inngang greinar sinnar tekur Gunnar Bragi til við að hallmæla VG fyrir andstöðu flokksins gegn NATO. Andstaðan sé í raun markleysa

Gunnar Bragi kallar það „afsökun formanns VG“ að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vísar réttilega til þjóðaröryggisstefnunar sem alþingi samþykkti til að skýra skyldur sínar sem forsætisráðherra í þjóðaröryggismálum. Í lögum um þjóðaröryggisráð segir meðal annars: „Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er jafnframt samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál.“ Í ályktun þingsins frá því í apríl 2016 er tekið af skarið um aðild Íslands að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin.

Gunnar Bragi segir: „VG gæti reyndar fengið smá trúverðugleika á ný ef þingmenn flokksins flyttu breytingatillögu við þjóðaröryggisstefnuna.“  Hvers vegna hefur Gunnar Bragi þessar áhyggjur af stöðu VG? Jú, hann telur Miðflokknum í hag að ýta undir deilur milli stjórnarflokkanna um þjóðaröryggisstefnuna. Ábyrgðarkennd hans vegna öryggis þjóðarinnar eru þau mörk sett.

Fyrir myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur lá fyrir að samþykkt þjóðaröryggisstefnunnar árið 2016 auðveldaði stjórnarsamstarf VG og sjálfstæðismanna. Forsætisráðherra sýnir í raun meiri ábyrgðarkennd gagnvart þjóðaröryggi en Gunnar Bragi sem stjórnast af hentistefnu.