2.5.2020 17:16

Ábyrgð Kína - frjálshyggja og COVID-19

Tvær Morgunblaðsgreinar vegna COVID-19: (1) ábyrgð Kína; (2) íslenska leiðin verra en sú sænska frá sjónarhóli frjálshyggjumanns.

Staldrað er við tvær aðsendar greinar í Morgunblaðinu í dag (2. maí) sú fyrri er eft­ir eftirlaunaþegana Þor­geir Eyj­ólfs­son og Hrafn Magnús­son um athugun á uppruna og útbreiðslu á COVID-19 og hin eftir formann frjálshyggjufélagsins Jóhannes Loftsson.

Þorgeir og Hrafn vekja athygli á að stjórnvöld í Ástralíu vilji að alþjóðleg, sjálfstæð rannsókn fari fram á uppruna COVID-19.

Um þetta sagði í leiðara Jyllands-Posten 30. apríl:

„Þetta er veira sem hefur kostað meira en 200.000 mannslíf um heim allan. Þess vegna er eðlilegt og ábyrgt að heimurinn óski eftir óhlutdrægu mati á hvernig þetta gat allt gerst svo að við getum dregið af því lærdóm og reynt að hindra að þetta endurtaki sig.“

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hafði varla lokið við að koma þessum orðum frá sér áður en talsmaður ríkisstjórnarinnar í Peking hafði lýst Ástralíu sem „tyggjóklessu neðan á skósóla Kína“ og þá hefur Jingye Cheng, sendiherra Kína í Canberra, hótað neytendabanni á ástralskar vörur.“

Fyrr í vikunni birtu Þorgeir og Hrafn grein í Fréttablaðinu þar sem þeir bentu á rangfærslu kínverska sendiherrans á Íslandi þegar hann hélt því fram að óvíst væri hvort COVID-19 ætti uppruna í Wuhan. Nú segja þeir eftir að hafa lýst gífurlegu tapi íslenska þjóðarbúsins vegna veirunnar:

„Umræða er­lend­is um bóta­greiðslur kín­verskra stjórn­valda vegna þess tjóns sem far­ald­ur­inn hef­ur valdið þjóðum heims fer vax­andi. Að teknu til­liti til þess gríðarlega tjóns sem hlýst af völd­um veirunn­ar á efna­hag þjóðar­inn­ar er mik­il­vægt að ís­lensk stjórn­völd gæti að stöðu lands­ins með þeim þjóðum sem hyggj­ast kanna rétt sinn gagn­vart kín­versk­um stjórn­völd­um. Frá Ástr­al­íu ber­ast frétt­ir um að yf­ir­völd leggi til að fram fari alþjóðleg rann­sókn á upp­runa og út­breiðslu COVID-19. Kín­verj­ar hafa gefið í skyn að haldi yf­ir­völd í Ástr­al­íu til streitu að kalla eft­ir alþjóðlegri at­hug­un á far­aldr­in­um komi til álita að beita landið efna­hagsþving­un­um. Fram­ganga Kín­verja í garð Ástr­ala má ekki verða til þess að ís­lensk stjórn­völd hafi ekki vilja til að huga að rétti þjóðar­inn­ar gagn­vart Kína.“

Fyrir sjónarmiði Þorgeirs og Hrafns eru sterk rök. Hvaða orð yrði valið um Ísland í kínverska utanríkisráðuneytinu þar sem Ástralía er sögð „tyggjóklessa neðan á skósóla Kína“ yrði farið að ráðum þeirra?

Article-13613-heroScott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.

Jóhannes Loftsson ber lof á sænsku aðferðina gegn COVID-19 sem er sögð sækja styrk sinn í það sem á sænsku er nefnt folkvett og felur Í sét að Svíar átti sig á hvað þeim sé fyrir bestu án þess að fá um það bein opinber fyrirmæli, almennt séð er ólíklegt að folkvett og frjálshyggja falli í sama farveg í Svíþjóð.

Íslenska leiðin gegn COVID-19 tekur mið af íslenskum veruleika. Margir Íslendingar una sér ekki endilega vel undir kvöðinni sem felst í folkvett.

Frjálshyggjuformaðurinn er ósannfærandi í málflutningi sínum þegar hann tengir COVID-19 og ICESAVE á ósmekklegan hátt. Þá hótar hann íslenskum ráðamönnum að þeir skuli „dregnir til ábyrgðar fyrir þennan nýja afleik aldarinnar“. Enn sé þó von um að komast megi „hjá harm­leikn­um“. Til þess þurfi „fólk að rísa upp og sýna viðspyrnu og láta í sér heyra strax, því eft­ir að sjúk­ling­ur­inn er dauður verður hon­um ekki bjargað leng­ur“. Þótt Jóhannes taki annan pól í hæðina en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er lausnin sú sama: „búsáhaldabylting“ í einhverri mynd.

Meginröksemdin fyrir gagnrýni Jóhannesar birtist í þessum orðum:

„Auðvitað á að nýta ár­ang­ur­inn gegn kór­ónuflens­unni til að opna landið strax aft­ur. Ef það væri gert nú myndi það vekja heims­at­hygli og laða hingað frels­isþyrsta ferðamenn sem kæm­ust hvergi annað.“

Það er góðra gjalda vert að opna Ísland sem fyrst. Hvert á hins vegar að fljúga eftir „ferðaþyrstum ferðamönnum“ ef þeir eru allir lokaðir inni í eigin löndum?