11.9.2020 10:10

Ábending til kirkjuþings

Á kirkjuþingi sem nú stendur ættu biskupar að kynna sér umræðurnar um þáttaskilin í Svíþjóð áður en þeir hvetja til þess að fetað sé í fótspor þeirra.

Þegar fulltrúar þjóðkirkjunnar á Íslandi hittast á kirkjuþingi og biskup og vígslubiskup boða að þar eigi að ræða og álykta um gjörbreytta stefnu í útlendingamálum til að opna landið enn frekar fyrir farandfólki og flóttamönnum berast fréttir frá Svíþjóð um þáttaskil í útlendingaumræðum þar frá þeirri stefnu sem forystumenn þjóðkirkjunnar virðast boða hér.

Oft er sagt að á Íslandi stöndum við 10 árum síðar en nágrannaþjóðirnar frammi fyrir vanda sem er á líðandi stundu alvarlegur hjá þeim. Hvort tíminn er svona langur eða ekki er álitaefni en það vekur jafnan undrun hve erfitt er fyrir marga hér, meira að segja þá sem skipa ábyrgðarmiklar áhrifastöður, að átta sig á hvað gera má til að sporna við erfiðleikum samanburðarþjóðanna í nágrenni okkar, þar eru Norðurlöndin í fremstu röð.

Yfirvöld í Noregi og Danmörku tóku fyrir mörgum árum allt aðra stefnu í útlendingamálum en gert var í Svíþjóð. Þótt Norðmenn og Danir glími víða við mikinn samfélagsvanda vegna skorts á aðlögun aðkomufólks að norsku og dönsku þjóðlífi eru vandræðin fjarri því eins mikil og í Svíþjóð.

Sænskir vinstrisinnar með jafnaðarmenn í fararbroddi hafa markvisst hafnað allri gagnrýni í þá veru að stefna þeirra og félagsleg útgjöld til útlendingamála ýti undir glæpi og afbrot í Svíþjóð. Laugardaginn 5. september urðu hins vegar þáttaskil í umræðum um þessi mál í Svíþjóð eins og sjá má hér.

Mats Löfving, aðstoðar-ríkislögreglustjóri Svía, sagði í útvarpsþætti að 40 glæpafjölskyldur störfuðu nú í Svíþjóð. Þær hefðu flust til landsins í þeim tilgangi að ná völdum, græða fé og færa út glæpastarfsemi sína.

„Þessar fjölskyldur hafa komið í þeim eina tilgangi til Svíþjóðar að skipuleggja glæpi. Þær vinna að því að auka völd sín, þær búa yfir miklu ofbeldisafli og þær vilja græða peninga. Og þetta gera þær í krafti fíkniefnabrota, ofbeldisverka og kúgunar. [...]

Auk þess eru dæmi um að öll fjölskyldan og önnur skyldmenni ali börn sín upp til þess að taka að sér stjórn skipulagðrar glæpastarfsemi. Þessi börn hafa engan áhuga á að verða hluti samfélagsins en metnaður þeirra stendur til þess strax frá fæðingu og í uppeldinu að taka að sér stjórn glæpakerfisins.“

9d505167-3087-4709-b3ab-c80771cad357Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Þessi orð og umræðurnar um þau urðu til þess að Stefan Löfven, forsætisráðherra jafnaðarmanna, sagði í sjónvarpssamtali miðvikudaginn 9. september þegar hann var spurður hvort mikill straumur innflytjenda ýtti undir fjölgun afbrota:

„Sé innflytjendamálum þannig háttað að aðlögun nýbúa er ekki viðunandi er ljóst að félagsleg spenna myndast. Það er ekki gott. Og þetta hefur gerst hjá okkur.“

Löfven hefur ekki áður talað á þennan veg um vanda stjórnar sinnar við að laga innflytjendur að sænsku samfélagi. Um þessi þáttaskil fjalla sænskir stjórnmálaskýrendur meðal annars á þann veg að jafnaðarmenn hafi með undanslætti sínum og félagslegum útgjöldum lagt grunn að hörmulegu ástandi í útlendingamálum og glæpunum sem því fylgi.

Á kirkjuþingi sem nú stendur ættu biskupar að kynna sér umræðurnar um þáttaskilin í Svíþjóð áður en þeir hvetja til þess að fetað sé í fótspor þeirra.