16.4.2021 10:25

Á svartan lista í Kína

Íslensk stjórnvöld hafa að sjálfsögðu mótmælt kínversku aðförinni að málfrelsi íslensks ríkisborgara.

Jónas Haraldsson lögfræðingur hefur verið settur á svartan lista kínverskra stjórnvalda. Hann sætir farbanni til Kína og eigi hann fjármuni í Kína verða þeir frystir. Jónas hefur skrifað greinar í Morgunblaðið og meðal annars gagnrýnt stjórnendur kínverska sendiráðsins í Reykjavík fyrir hirðuleysi um kínverska eign á Víðimel og illgresi umhverfis hana.

Í október 2020 brást Jónas við grein sem sendiherra Kína á Íslandi ritaði í Morgunblaðið og laut að tilraunum kínverskra stjórnvalda til að firra sig ábyrgð vegna COVID-19-faraldursins. Í Morgunblaðinu 9. október sagði Jónas að það gengi aldrei upp að sá sem gerðist sekur tjón reyndi að „samsama sig með fórnarlömbum sínum“ hann væri í raun á sama báti og hinir allir, eins og hann taldi kínverska sendiherrann reyna að gera í Morgunblaðinu 1. október 2020. Allir yrðu að bera ábyrgð á gerðum sínum og öllu því tjóni sem þeir kynnu að valda öðrum. „Mesta stórveldi heimsins, Kína, tjónvaldurinn sjálfur í þessu tilviki, er þar að sjálfsögðu ekki undanþegið. Það rústar enginn heimsbyggðinni og kemst skaðlaus frá því,“ sagði Jónas.

686717Þessi mynd Styrmis Kára birtist í Morgunblaðinu í júlí 2013 og sýnir garð kínverska sendiráðsins við Víðimel. Jónas Haraldsson mótmælti vanhirðunni hvað eftir annað í blaðagreinum.

Íslensk stjórnvöld hafa að sjálfsögðu mótmælt kínversku aðförinni að málfrelsi íslensks ríkisborgara. Í stærra samhengi er hún í samræmi við hörkuna sem færst hefur í framgöngu kínverskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi undanfarin misseri. Á fyrsta fundi Antonys Blinkens, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með Yang Jiechi, utanríkismálastjóra kínverska kommúnistaflokksins, í Anchorage í Alaska nú í mars flutti kínverski fulltrúinn til dæmis rúmlega 15 mínútna skammarræðu um Bandaríkin í upphafi fundar í stað stutts kurteisi-ávarps. Það er eitt að skamma viðmælanda sinn annað er hins vegar að setja annarra þjóða menn á svartan lista í von um að stjórna umræðum um Kína í fjölmiðlum viðkomandi lands.

Jónína Bjartmarz. fyrrv. ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, formaður kínavinafélags, birtir grein í Morgunblaðinu í dag (16. apríl) þar sem hún ber blak af kínverskum stjórnvöldum. Hún hrósar þeim meira að segja fyrir framgöngu þeirra í garð minnihlutahópa og telur ofsótta Úígúra, múslima í Xinjiang-héraði í Vestur-Kína njóta sérstaks skilnings og velvilja ráðamanna í Peking!

Þessi skoðun Jónínu gengur þvert á allar fréttir sem berast milliliðalaust og án ritskoðunar kínverska kommúnistaflokksins af illum örlögum Úígúra.

Að hvítþvottargrein Jónínu birtist einmitt sama dag og á forsíðu Morgunblaðsins er sagt frá svartlista-skráningu Jónasar Haraldssonar áréttar aðeins hvernig kínversk stjórnvöld vilja láta smjaðra fyrir sér í vestrænum fjölmiðlum.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mótmælir þessari íhlutun Kínverja í opinberar umræður harðlega. Það hljóta allir frjálshuga menn að gera. Vitað er að á bak við tjöldin hika kínversk stjórnvöld ekki við að minna á nauðsyn vinsamlegrar framkomu í sinn garð, að þau setji Íslendinga opinberlega á svartan lista er nýtt skref sem kallar á ný viðbrögð.