27.5.2022 6:49

Á Feneyjaslóðum

Ferðamannastraumur er mikill um Mestre og mörg hótel skammt frá brautarstöðinni enda fara flestir um borgina til að komast til Feneyja.

Þegar kom að því að ákveða ferðadaga og dvalartíma í Mestre eða Feneyja-Mestre hafði ungverska flugfélagið Wizzair ný hafið vikulegt flug á milli Keflavíkurflugvallar og Marco Polo flugvallar, einnig nefndur Feneyjaflugvöllurinn. Lá því beinast við að huga að viðskiptum við Wizzair. Þau voru mjög hagkvæm.

Flogið er utan 20.40 á laugardagskvöldi og reiknað með allt að 4.30 tíma flugi. Á okkar flugi var rúmlega klukkutíma seinkun og klukkan var því að nálgast 06.00 að morgni sunnudags þegar við komum á hótelið í Mestre eftir um 20 mínútna akstur í leigubíl en á milli vallarins og brautarstöðvarinnar í Mestre ganga vagnar yfir daginn.

Í flugvélinni var grímuskylda og svo er einnig í öllum almenningsfarartækjum, í lestum, strætisvögnum og bátunum í Feneyjum. Er gengið eftir því að þessari skyldu sé fylgt og þeim gefið hornauga sem ekki gera það.

Ferðamannastraumur er mikill um Mestre og mörg hótel skammt frá brautarstöðinni enda fara flestir um borgina til að komast til Feneyja. Af kunnugum er fólki frekar ráðlagt að fara með lest í 10 mínútur til Feneyja frekar en en rútu, frá lestarstöðinni sé styttri gönguleið að almenningsbátum borgarinnar sem sigla um meginleiðir innan hennar.

Það tekur t.d. hátt í klukkustund að sigla frá lestarstöðinni að sýningarsvæði Feneyjatvíæringsins, listaverk tengd honum má raunar sjá um alla borgina.

Ferðamannafjöldinn í Feneyjum er gífurlegur. Í Mestre má á völdum stöðum kaupa farseðla með almenningsbátunum í Feneyjum og komast þar með hjá biðröðum þar.

Frá Mestre er unnt að taka lestir til allra átta á Ítalíu meðal annars til nágrannabæjarins Latisana, lestarstöðvarinnar fyrir strandbæinn Lignano sem er í 20 km fjarlægð. Við tókum leigubíl frá stöðinni til Lignano og sótti hann okkur eftir nokkurra tíma dvöl í bænum. Þarna virðast ferðamenn almennt á eigin bílum eða í skipulögðum rútuferðum. Upplýsingar um rútuferðir voru mjög litlar.

IMG_5037Rut og Isidoro Nadalini á heimili hans í Lignano.

Íslendingar sóttu þennan stað mikið á árum áður að frumkvæði Ingólfs Guðbrandssonar í samvinnu við frumkvöðulinn Isidoro Nadalini sem enn minnist samstarfs þeirra af einlegri gleði.

Lignano hélt velli í gegnum heimsfaraldurinn, Ítalir sóttu þangað mikið sjálfir þegar ferðir til útlanda lágu niðri. Nú er aðsókn þangað jafnvel meiri en áður var og þótt skarð sé vegna ferðabanns á Rússa er það auðfyllt. Austurríkismenn eru margir í Lignano enda aðeins rúmlega tveggja tíma akstur fyrir þá. Gífurleg sala er þar á íbúðum og öðrum fasteignum til útlendinga. Strandbærinn góði blómstrar þótt Íslendingar sæki hann ekki lengur heim. Kannski verður beint flug Wizzair til þess að breyta því? Eitt er víst að Nadalini-fjölskyldan á enn góðar minningar um Íslendinga. Sama á við um aðra. Við hittum til dæmis gamalreyndan hjólaleigumann sem enn kunni íslensk lykilorð.

Það er margt að sjá í þessum hluta Ítalíu og í Mestre er gamalt friðsælt, endurgert borgarhverfi sem vert er að skoða.