1.5.2017 12:19

1. maí - valdabaráttudagur innan verkalýðshreyfingarinnar

Verkalýðsforystan hefur viljað að litið sé á 1. maí sem sameiginlegan baráttudag íslenskrar alþýðu. Að Gunnar Smári kjósi að rjúfa þann frið sýnir að þessi dagur hefur misst gildi sitt hér á landi. Þ

Í dag er 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Hann er einnig dagur íslenska hestsins sem haldinn er hátíðlegur um allt land. Hestamannafélög taka á móti gestum og kynna starfsemi sína, teyma undir börnum og fræða fólk um íslenska hestinn. 

Á sínum tíma var sérstakt baráttumál verkalýðshreyfingarinnar að fá 1. maí viðurkenndan sem löggiltan frídag og náði það fram að ganga árið 1966. Gamalreyndur lúðrasveitarmaður sagði mér á dögunum að það hefði oft verið mikill munur að spila í lúðrasveit í skrúðgöngu sumardaginn fyrsta og í kröfugöngunni 1. maí vegna þess hve veðrið hefði verið betra og sumarlegra 1. maí.  

Í dag er víða efnt til útfunda meðal annars tveggja í Reykjavík. Annars vegar á Ingólfstorgi undir forystu ASÍ og hins vegar á sama tíma á Austurvelli að frumkvæði Gunnars Smára Egilssonar sem stofnar Sósíalistaflokk Íslands með fundinum.  Hjá Gunnari Smára hafa Ragnar Þór Ingólfsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, stærsta félagsins innan ASÍ, og Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, verið kynnt sem ræðumenn. Kjörorð sósíalista er: „Við viljum hreyfinguna okkar aftur“. Í tilkynningu fyrir fundinn segir: „Endurheimtum verkalýðshreyfinga sem baráttutæki fyrir launafólk fyrir réttlátu samfélagi.“

Resized_20170501_150757Þessi mynd birtist á Facebook og sýnir stofnfund Sósíalistaflokksins á Austurvelli 1. maí 2017.

Að stofna sósíalistaflokk á Íslandi er tímaskekkja og ber vott um brenglaða sýn á þróun stjórnmála í lýðræðislöndunum þar sem gamla slagorð Sjálfstæðisflokksins stétt með stétt er orðið að veruleika, til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi. Auðkýfingurinn Donald Trump sótti fylgi sitt einkum til þeirra sem áður voru taldir til verkalýðsstéttar. Sama ætlar Theresa May og breski Íhaldsflokkurinn að gera í Bretlandi.

Eins og sjá má á slagorðum flokks Gunnars Smára mótast stefna hans af valdabaráttu innan verkalýðshreyfingarinnar. Sósíalistarnir í flokki hans vilja ná völdum innan hreyfingarinnar til að beita henni fyrir eigin vagn. Gunnar Smári er ekki þekktur fyrir að berjast fyrir hag annarra eins og sannaðist síðast af viðskilnaði hans við Fréttatímann og blekkingarleikinn sem þar var settur á svið.

Verkalýðsforystan hefur viljað að litið sé á 1. maí sem sameiginlegan baráttudag íslenskrar alþýðu. Að Gunnar Smári kjósi að rjúfa þann frið sýnir að þessi dagur hefur misst gildi sitt hér á landi. Það verður ekki endurreist með því að færa klukkuna til baka í nafni stéttabaráttu.Nú hefur 1. maí verið breytt á Íslandi úr baráttudegi verkalýðsins í valdabaráttudag innan verkalýðshreyfingarinnar.